2.209 einstaklingar gáfu mannréttindum tólf stig

Íslandsdeild Amnesty International hratt af stað kynningarátaki í aðdraganda Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þar sem athyglinni var beint að fjórtán samviskuföngum í Aserbaídsjan.

 

Hera Björk studdi lausn Elnur Majidli. Hann hefur nú verið leystur úr haldi.

Íslandsdeild Amnesty International hratt af stað kynningarátaki í aðdraganda Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þar sem athyglinni var beint að fjórtán samviskuföngum í Aserbaídsjan. Fjöldi tónlistarfólks og fjölmargir aðrir lögðu átakinu lið og stóðu að baki kröfu um að stjórnvöld í Aserbaídsjan virði mannréttindi. Markmið átaksins var að fá almenning til að skrifa undir ákall til Ilham Aliyev forseta Aserbaídsjan, þar sem farið er fram á að samviskufangarnir verði tafarlaust leystir úr haldi. Viðbrögð almennings við átakinu voru framar vonum. Fjöldi þeirra sem skrifaði undir ákallið var 2.209. Íslandsdeild Amnesty International þakkar hverjum og einum sem lagði átakinu lið mikilvægan stuðning.

Nú þegar hefur Elnur Majidli, einn hinna fjórtán samviskufanga, verið leystur úr haldi. Hann var sakfelldur og dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi 2011. Elnur var gefið að sök að hvetja til óspekta á almannafæri. Íslandsdeild Amnesty International fagnar lausn hans og skorar um leið á stjórnvöld í Aserbaídsjan að leysa tafarlaust úr haldi alla þá samviskufanga sem enn sitja í fangelsi í landinu.

Eins og í öllum málum sem samtökin taka upp munu þau halda áfram að þrýsta á stjórnvöld í Aserbaídsjan, þar til allir samviskufangarnir hafa hlotið frelsi.