Ríkisstjórnir tala fjálglega um nauðsyn þess að vernda almenna borgara. En stjórnmálamönnum heimsins hefur mistekist hrapallega að vernda þá sem mest þurfa á vernd að halda.
Mótmæli í Hong Kong © Paula Bronstein/Getty Images
Eftir Salil Shetty, aðalframkvæmdastjóra Amnesty International
Síðasta ár var hræðilegt fyrir þá sem börðust fyrir mannréttindum og þá sem þjáðust á stríðshrjáðum svæðum.
Ríkisstjórnir tala fjálglega um nauðsyn þess að vernda almenna borgara. En stjórnmálamönnum heimsins hefur mistekist hrapallega að vernda þá sem mest þurfa á vernd að halda. Amnesty International telur að þessu sé hægt og verði að breyta.
Alþjóðleg mannúðarlög – sem mæla fyrir um framkomu í vopnuðum átökum – eru mjög skýr. Aldrei má beina árásum að almennum borgurum. Skilin milli almennra borgara og stríðsaðila eru grundvallaratriði í lögunum og ætlað að vernda óbreytta borgara sem dragast inn í hryllinginn sem fylgir stríði.
Samt gerist það aftur og aftur að óbreyttir borgarar þjást mest þegar átök brjótast út. Árið 2014 voru tuttugu ár liðin frá þjóðarmorðunum í Rwanda. Samt tröðkuðu stjórnmálamenn ítrekað á lögum og reglum sem vernda almenna borgara eða horfðu framhjá hræðilegum brotum annarra á þessum reglum.
Aðgerðaleysi á alþjóðavettvangi
Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna mistókst ítrekað að takast á við neyðarástandið í Sýrlandi í nokkur ár þegar unnt hefði verið að bjarga fjölmörgum mannslífum. Síðustu fjögur ár hafa yfir 200.000 manns látið lífið, flestir óbreyttir borgarar, og flestir í árásum stjórnarhersins. Um fjórar milljónir Sýrlendinga hafa flúið land og yfir 7,6 milljónir eru á flótta í eigin landi.
Neyðarástandið í Sýrlandi tengist nú ástandinu í nágrannaríkinu Írak. Vopnaður hópur sem kallar sig Íslamska ríkið hefur staðið fyrir stríðsglæpum í Sýrlandi og þjóðernishreinsunum í norðanverðu Írak. Sömuleiðis hafa vopnaðir hópar sjíta rænt og drepið fjölmarga súnníta í Írak, með óbeinum stuðningi stjórnvalda í landinu.
Um 2.000 Palestínumenn féllu í árásum Ísraelsmanna á Gasa í júlí 2014. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra voru almennir borgarar. Hamas-samtökin frömdu einnig stríðsglæpi með því að skjóta eldflaugum með handahófskenndum hætti að Ísrael, með þeim afleiðingum að sex manns létu lífið.
Hryllingurinn sem fylgir stríði
Átökin í Nígeríu milli stjórnarhersins og vopnaða uppreisnarhópsins Boko Haram komust í kastljós alþjóðafjölmiðla eftir að Boko Haram rændi 275 stúlkum í bænum Chibok. En minni athygli vöktu hræðilegir glæpir nígerískra örryggissveita gegn þeim sem taldir voru styðja eða vera meðlimir Boko Haram.
Í Mið-Afríkulýðveldinu dóu yfir 5.000 manns í átökum hópa þrátt fyrir veru alþjóðaherliðs í landinu. Pyndingar, nauðganir og fjöldamorð náðu varla á forsíður alþjóðafjölmiðla. Enn og aftur voru flestir hinna látnu óbreyttir borgarar.
Og í Suður-Súdan, nýjasta ríki heimsins, voru tugþúsundir almennra borgara drepnir og tvær milljónir neyddust til að flýja heimili sín í vopnuðum átökum stjórnarhersins og andstöðuhópa. Báðir aðilar frömdu stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.
Meira en orðin tóm
Þau stjórnvöld sem hæst hafa látið um mistök annarra stjórnvalda hafa sjálf hikað við að stíga fram og veita bráðnauðsynlega aðstoð sem flóttafólk þarf á að halda, hvort sem um er að ræða fjárhagslega aðstoð eða aðstoð við að koma flóttafólki fyrir. Um 2% flóttafólks frá Sýrlandi hafði fengið slíka aðstoð í árslok 2014. Þá prósentutölu verður að þrefalda, hið minnsta, árið 2015.
Mikill fjöldi flóttafólks og farandfólks deyr á Miðjarðarhafi þegar það reynir að ná til Evrópu. Skortur á stuðningi frá sumum aðildarríkjum Evrópusambandsins hvað varðar leit og björgun þessa fólks hefur átt sinn þátt í því að fjöldi látinna er jafn hár og raun ber vitni.
Andóf bælt niður
Árið 2014 héldu stjórnvöld víðs vegar í heiminum áfram að ráðast gegn frjálsum félagasamtökum. Í Rússlandi var hert að félagasamtökum með strangari löggjöf. Barið var á frjálsum félagasamtökum í Egyptalandi og þau skilaboð send að ríkisstjórn landsins muni ekki þola neitt andóf.
Vonarljós framundan
Árið 2014 voru þrjátíu ár liðin frá því að samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum var samþykktur, en Amnesty International barðist fyrir gerð samningsins í fjöldamörg ár.
Um leið og þessum áfanga er fagnað er ástæða til að minnast þess að pyndingar eru enn algengar um heim allan. Þess vegna hóf Amnesty International herferð sína Stöðvum pyndingar á síðasta ári.
Baráttan gegn pyndingum varð enn mikilvægari í ljósi skýrslu bandarísku öldungadeildarinnar í desember 2014, sem sýndi hversu mikill vilji ríkti til að umbera pyndingar í kjölfar árásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Sláandi var að ýmsir þeirra sem báru ábyrgð á pyndingunum virtust enn trúa því að þeir hefðu ekkert til að skammast sín fyrir.
Viðs vegar um heim, frá Washington til Damaskus, frá Abuja til Colombo, hafa stjórnvöld réttlætt hræðileg mannréttindabrot með tilvísan í nauðsyn þess að tryggja „öryggi“ í landinu. Hið öfuga er nær sanni. Slík mannréttindabrot eru ein meginástæða þess öryggisleysis sem ríkir í heiminum um þessar mundir. Ekki er hægt að tryggja öryggi í heiminum án þess um leið að tryggja mannréttindi.
Við verðum að vona að árið 2014 marki lágpunkt og að við getum horft til baka og séð að við höfum síðar skapað saman betri og bjartari framtíð.
