Þann 13. maí árið 2014 hleypti Amnesty International úr vör herferðinni, Stöðvum pyndingar til að bregðast við aukningu á beitingu pyndinga á heimsvísu - samtökin skráðu pyndingar í 141 ríki síðustu fimm árin.
Tölfræði og staðreyndir
Þann 13. maí árið 2014 hleypti Amnesty International úr vör herferðinni, Stöðvum pyndingar til að bregðast við aukningu á beitingu pyndinga á heimsvísu – samtökin skráðu pyndingar í 141 ríki síðustu fimm árin.
Þrátt fyrir að mörg ríki hafi tekið stór skref í baráttunni gegn pyndingum, beitir fjöldi ríkja um heim allan, enn pyndingum og annarri illri meðferð, til að þvinga fram játningar, eða upplýsingar, þagga niður í pólitískum andstæðingum eða til að refsa grimmilega.
157 – Fjöldi landa sem hefur fullgilt alþjóðlegan samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð og refsingu.
141 – Fjöldi landa þar sem Amnesty hefur skráð pyndingar og aðra illa meðferð á síðustu fimm árum. Í sumum löndum er sjaldgæft að pyndingar séu stundaðar, annars staðar eru pyndingar stundaðar kerfisbundið. Hvert og eitt tilfelli pyndinga og illrar meðferðar er hins vegar ólíðandi.
82% – Pyndingar og ill meðferð var skráð í 80% þeirra landa sem Amnesty International greindi frá í ársskýrslu samtakanna árið 2014.
Fjöldi pyndinga:
Allt frá því að Amnesty International hóf herferð sína, Stöðvum pyndingar, í maí árið 2014, hafa samtökin gefið út skýrslur um pyndingar og aðra illa meðferð í Mexíkó, Marokkó, á Filippseyjum og í Úsbekistan. Skýrslurnar sýna að pyndingar eru stundaðar kerfisbundið í þessum löndum og fáir eru sóttir til saka.
1,505 – Fjöldi kæra vegna pyndinga og annarar illrar meðferðar í Mexíkó árið 2013 sem er 600% meira en árið 2003.
50% af íbúum Nígeríu óttast að sæta ekki pyndingum í varðhaldi.
21 – Fjöldi þeirra sem sættu pyndingum á barnsaldri á Filippseyjum sem Amnesty International ræddi við í skýrslunni, Above the law: Police torture in the Philippines.
13 – Fjöldi beiðna frá árinu 2002 frá mannréttindasérfræðingum Sameinuðu þjóðanna um að heimsækja Úsbekistan til að meta ástand mannréttindamála þar í landi.
8 – Fjöldi þeirra sem sóttir hafa verið til saka frá maí 2014 eftir að hafa kvartað yfir eða kært pyndingar í Marokkó. Fólkið var dæmt fyrir „ærumeiðandi ummæli“, „falskar ásakanir“, „opinbera móðgun“ og/eða „ófrægingu“.
7 – Fjöldi sakfellinga vegna pyndingarmála í Mexíkó frá árinu 1991, þegar pyndingar voru bannaðar með lögum. Þúsundir kæra eru skráðar á ári hverju.
0 – Fjöldi sakfellinga á Filippseyjum frá því að lög gegn pyndingum voru samþykkt í landinu árið 2009.
Ýmsar pyndingaraðferðir
Algengustu pyndingaraðferðirnar eru einfaldar og fólskulegar – hnefahögg, spörk, barefli s.s. kylfur – hvaðeina sem kann að valda beinbroti eða sári.
Neðangreindar eru nokkrar af „háþróaðri“ pyndingaraðferðum sem Amnesty International hefur skráð:
Mexíkó: “Tehuacanazo” – kolsýrt vatn þvingað inn um nasir fanga.
Marokkó: “Roast chicken” – fangi hengdur upp á hvolfi á stöng í álagsstöðu með hné og úlnliði hnipruð saman. Þessi stelling setur mikið álag á hné og axlir.
Nígería: “Tabay” – þegar lögregla bindur olnboga fanga fyrir aftan bak og hengir þá upp.
Filippseyjar: “Wheel of Torture” – Lögreglan snýr „lukkuhjóli” til að ákveða hvernig á að pynda fangana. Ef nálin lendir á „30 sekúndur leðurblökustaða” er fanga gert að hanga á hvolfi eins og leðurblaka, o.s.frv.
Úsbekistan: Barsmíðar á meðan fangi er hengdur upp á krók sem er festur í lofti, oft með hendur bundnar fyrir aftan bak.
Alþjóðleg herferð gegn pyndingum!
Með herferð sinni, Stöðvum pyndingar, hefur Amnesty International tekist að virkja milljónir til að taka þátt í beinum aðgerðum allt frá því henni var ýtt úr vör árið 2014. Allar aðgerðirnar beinast gegn pyndingum stjórnvalda í fimm löndum.
2 milljónir – Fjöldi þeirra sem hafa gripið til aðgerða með ýmsum hætti frá maí 2014 í tengslum við herferðina, Stöðvum pyndingar.
340.000 – fjöldi þeirra sem skrifuðu undir ákall til ríkissaksóknara í Mexíkó og kröfðust þess að rannsókn yrði hafin á máli Claudiu Medina sem sætti pyndingum af hálfu hermanna í Mexíkó árið 2012. Hún var pynduð til að þvinga fram játningu í tengslum við fíkniefnaglæp.
300.000 – Fjöldi þeirra sem skrifuðu undir ákall til stjórnvalda á Filippseyjum þar sem þess var krafist að einstæð móðir að nafni Alfreda Disbarro yrði látin laus úr fangelsi en hún var ákærð fyrir að selja eiturlyf. Alfreda hefur alla tíð staðfastlega neitað sök. Henni bárust svo mörg stuðningsbréf frá fólki um víða veröld að fangaverðir kvörtuðu sárann yfir því að geta engu öðru sinnt en að skanna bréf fyrir Alfredu!
200.000 – fjöldi undirskrifta á bréf sem send voru til sendiráðs Úsbekistan í 12 borgum Evrópu í október 2014 þar sem þess var krafist að leysa tafarlaust úr haldi samviskufangann Dilorom Abdukadirova. Dilorom sætti geðþóttahandtöku og pyndingum í varðhaldi eftir að hún sneri heim úr útlegð til að sameinast fjölskyldu sinni.
Árangur í baráttunni gegn pyndingum!
Það er mögulegt að stöðva pyndingar. Í þeim löndum sem komið hafa upp vörnum gegn pyndingum hefur fjöldi kvartana og ákæra vegna pyndinga og annarar illrar meðferðar fækkað töluvert. Frá því að herferðinni, Stöðvum pyndingar var ýtt úr vör hefur margvíslegur árangur náðst í baráttunni gegn pyndingum:
21. maí 2014 – Stjórnvöld í Marokkó opna að nýju rannsókn sína á pyndingum sem Ali Aarrass sætti og fyrirskipa aðra læknisskoðun á honum og bregðast þannig við kröfum Amnesty International og nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum. Læknisskoðunin fór fram í nóvember 2014 og tók nokkra daga. Ali Aarrass og lögfræðingur hans bíða enn eftir niðurstöðu læknisskoðunarinnar.
15. október 2014 – Yfirvöld í Mexíkó sleppa hondúríska samviskufanganum Ángel Amilcar Colón, úr fangelsi en hann hafði þá setið á bak við lás og slá í fimm ár og sætt pyndingum og annarri illri meðferð meðan á fangavistun stóð. 20.000 einstaklingar skrifuðu undir ákall Amnesty International þar sem lausnar hans var krafist.
10. desember 2014 – Lögreglan í Nígeríu gaf út mannréttindahandbók sem inniheldur staðla fyrir lögreglu í starfi sínu. Amnesty International hefur barist fyrir því frá árinu 2008 að lögreglan gefi út nákvæmar leiðbeiningar um hvernig lögreglu ber að virða mannréttindi í starfi sínu.
29. maí 2014 – Dómsmálaráðuneyti Marokkó fyrirskipar dómurum og saksóknurum að kalla eftir læknisskoðun þegar grunur leikur á pyndingum og annarri illri meðferð.
3. júní 2015 – Þjóðþing Nígeríu samþykkti nýtt frumvarp sem gerir pyndingar refsiverðar. Það býður nú undirskriftar nýkjörins forseta Buhari.
3. júní 2015 – Yfirvöld í Nígeríu ákveða að náða Moses Akatugba en hann sætti pyndingum og annarri illri meðferð aðeins 16 ára gamall eftir ásakanir um farsímastuld. Hann var dæmdur til dauða með hengingu eftir átta ár í fangelsi. Rúmlega 800.000 Amnesty-félagar sendu bréf á fylkisstjórann á óseyrum Nígerfljóts, Emmanuel Uduaghan, þar sem skorað var á hann að náða Moses. Fylkisstjórinn náðaði Moses þann 28. maí 2015 og lét það verða eitt af síðustu verkum sínum áður en hann hætti störfum.
