Búrkína Fasó verður nauðsynlega að takast á við
þann þjóðarvanda sem snemmbær og þvinguð hjónabönd eru, auk óæskilegra þungana
og skorts á kynfræðslu.
.
Búrkína Fasó verður nauðsynlega að takast á við þann þjóðarvanda sem snemmbær og þvinguð hjónabönd eru, auk óæskilegra þungana og skorts á kynfræðslu. Allir þessir þættir gera konur og stúlkur í landinu að annars flokks borgurum.
Amnesty International skorar á alla frambjóðendur kosninganna sem fara fram í byrjun október 2015 að taka afgerandi afstöðu gegn snemmbæru og þvinguðu hjónabandi og gera konum og stúlkum hægara um vik að nálgast getnaðarvarnir, ásamt þjónustu og upplýsingar um kyn– og frjósemisréttindi.
„Ung stúlka sem elst upp í Búrkína Fasó mætir margs konar hindrunum sem gera vonir hennar og drauma að engu. Foreldrar hennar geta þvingað hana í hjónaband og jafnvel þó hún hafi ráð á getnaðarvörn getur eiginmaðurinn neitað henni um notkun hennar. Stjórnvöld í Búrkína Fasó hafa hundsað réttindi kvenna og stúlkna í landinu um langt skeið. Hver einasti frambjóðandi kosninganna ætti að setja úrbætur á þessum málefnum kvenna og stúlkna á oddinn og ýta úr vegi þeim hindrunum sem þær mæta,“ segir Alioune Tine svæðisstjóri Amnesty International fyrir Vestur og Mið – Afríku.
Enda þótt jafnrétti kynjanna sé verndað samkvæmt lögum og í stjórnarskrá landsins eru limlestingar á kynfærum kvenna, snemmbær og þvinguð hjónabönd og heimilisofbeldi afar útbreitt í Búrkína Fasó. Konur og stúlkur í Búrkína Fasó tjáðu Amnesty International að ákvarðanir um þunganir og hjónbönd eru oft teknar af karlmanni innan fjölskyldunnar. Afleiðingar eru þær að aðeins 17% kvenna og stúlkna í Búrkína Fasó nota getnaðarvarnir og rúmlega 2000 konur og stúlkur láta lífið við barnsburð á ári hverju.
Hindranir á aðgengi að getnaðarvörnum
Það er afar algengt að karlmenn komi í veg fyrir að eiginkonur þeirra noti getnaðarvarnir í Búrkína Fasó með hótun um ofbeldi. Therese, 23 ára ávaxtasali og þriggja barna móðir, sagði eftirfarandi við Amnesty International: „Allt frá því ég fæddi mitt annað barn hef ég farið leynt með inntöku á getnaðarvarnarpillu sem er líka ódýrari fyrir mig en aðrar getnarvarnir. Eiginmaður minn veit ekkert um getnaðarvarnir. Hann telur að þær valdi sjúkdómum og hótar að loka mig inni ef ég verð veik af völdum notkunar getnaðarvarna.“
Aðrar hindranir sem konur og stúlkur mæta í aðgengi að getnaðarvörnum eru hár kostnaður og skortur á almennri kynfræðslu. Mariama, 24 ára móðir þriggja barna, greindi Amnesty International frá því hvernig skortur á kynfræðslu leiddi til óæskilegrar þungunar. „Þegar ég stundaði kynlíf og varð þunguð í kjölfarið í fyrsta sinn, þá vissi ég ekki að kynlíf gæti leitt til þungunar. Eftir að fyrsta barnið mitt fæddist varð ég fljótlega þunguð á nýjan leik. Ég notaði enga getnaðarvörn því ég vissi ekki enn hvað ég ætti að gera.“
Sláandi tölur um snemmbær og þvinguð hjónabönd
Næsta ríkisstjórn í Búrkína Fasó verður að bregðast við ógnvænlegum fjölda snemmbærra hjónabanda með því að endurskoða landslög. Tryggja verður að lögum, sem banna snemmbær hjónabönd, sé framfylgt m.a. með því að refsa fjölskyldum sem gifta stúlkur án þeirra samþykkis. Tíðni snemmbærra hjónbanda í Búrkína Fasó er ein sú hæsta í heimi en 52% stúlkna eru giftar um 18 ára aldur og nærri helmingur þeirra hefur eignast barn á þeim aldri.
Malaika flúði að heiman til að komast hjá því að foreldrar hennar þvinguðu hana í hjónaband. Þegar Malaika náðist af lögreglu var henni sagt að fara aftur í foreldrahús. „Ég var fimmtán ára gömul þegar foreldrar mínir vildu gifta mig gömlum manni. Hann var sjötíu og fimm ára. Hann er eldri en faðir minn og á þrjár eiginkonur fyrir og dætur á mínum aldri. Þegar sá dagur rann upp að kynna átti mig fyrir gamla manninum sagði ég foreldrum mínum að ég væri ósátt við val þeirra og að ég vildi ljúka menntun minni. Þau sögðu mér að ég yrði að giftast manninum sem þau hefðu valið og að ég ætti ekkert val um annað en að samþykkja ráðahaginn.“
„Amnesty International skorar á alla frambjóðendur kosninganna að vernda mannréttindi kvenna og stúlkna í Búrkína Fasó og skuldbinda sig til að koma á mikilvægum breytingum sem gera konum og stúlkum kleift að taka grundvallarákvarðanir um líf sitt og líkama,“ segir Alioune Tine. „Hver sá sem vill stjórna Búrkína Fasó í framtíðinni verður að binda enda á mismunun gegn ungu fólki í landinu. Æska ungs fólks er að engu gerð og stúlkur eru rændar rétti sínum til að taka frjálsar ákvarðanir um líf sitt og líkama. Konum og stúlkum í Búrkína Fasó er ekki fjálst að ákveða hvenær og hverjum þær giftast, hvenær þær eignast börn og hversu mörg – þetta verður að breytast.“
Herferðin Minn líkami, Mín réttindi er alþjóðleg herferð Amnesty International gegn tilraunun ríkisstjórna til að stjórna lífi kvenna og stúlkna. Herferðin horfir m.a. til brota á kyn- og frjósemisréttindum á Írlandi, Magreb svæðinu og í El Salvador.
Sumarstarfsfólk Íslandsdeildarinnar safnar nú undirskriftum á ákall til forseta Búrkína Fasó þar sem þess er krafist að aðgengi að getnaðarvörnum sé tryggt fyrir konur og stúlkur og að komið sé í veg fyrir snemmbær og þvinguð hjónabönd. Við hvetjum alla til að skrifa undir ákallið.
