Amnesty International er alþjóðleg hreyfing tíu milljón einstaklinga um heim allan sem vilja berjast fyrir réttlátum heimi þar sem mannréttindi okkar allra eru virt. Þann 28. maí eru 60 ár frá því að Amnesty International hóf baráttu sína fyrir mannréttindum.
Upphafið var þegar breska lögfræðingnum Peter Benenson blöskraði óréttlætið í heiminum og skrifaði greinina, Gleymdu fangarnir, sem birtist í dagblaðinu Observer. Í greininni kallaði hann eftir því að fólk gripi til aðgerða fyrir fólk sem var í fangelsi fyrir skoðanir sínar. Ákall hans snerti við fólki sem sameinaðist í baráttunni fyrir réttlæti og frelsi.
Þessi samtakamáttur var upphafið af alþjóðahreyfingu Amnesty International sem síðastliðna sex áratugi hefur átt þátt í mörgum mannréttindasigrum. Upphaf Amnesty International sýnir að oft þarf bara einn einstakling sem berst fyrir betri heimi til að ná fram breytingum og hafa áhrif um allan heim.
Leit að tilnefningum
Til eru mörg dæmi um kraftmikla einstaklinga sem grípa til aðgerða af eigin frumkvæði gegn óréttlæti og ná fram jákvæðum samfélagsbreytingum. Í tilefni að 60 ára afmælinu mun Íslandsdeild Amnesty International veita viðurkenninguna „Aðgerðasinni Amnesty International“. Íslandsdeildin leitar því að tilnefningum frá almenningi um aðgerðasinna á Íslandi sem hafa barist fyrir réttlátari heimi. Hægt er að senda tillögur á amnesty@amnesty.is fram til 14. maí næstkomandi.
Stjórn Íslandsdeildarinnar velur aðgerðasinna Amnesty International og veitir viðurkenningu þann 28. maí næstkomandi, á sjálfum afmælisdeginum. Viðurkenningin verður veitt í Pósthússtræti þar sem Íslandsdeildin mun opna sýningu um sögu samtakanna og mannréttindasigra síðustu 60 ára.

