Nú þegar yfirvöld í nokkrum Evrópulöndum hafa sett takmarkanir á réttinn til að mótmæla í tengslum við samstöðu með mannréttindum palestínsks fólks kallar Amnesty International eftir því að tjáningarfrelsið sé virt. Fólk á rétt á að koma saman og tjá sig með friðsamlegum hætti.
„Það er skiljanlegt að átakanlegar afleiðingar sprengjuárása Ísraels og ólögmætrar herkvíar á Gaza-svæðinu hvetji fólk í Evrópu til að mótmæla þar sem er sýnd samstaða með réttindum palestínsks fólks. Samt sem áður hafa yfirvöld í mörgum Evrópulöndum takmarkað með ólögmætum hætti réttinn til að mótmæla. Takmarkanir hafa beinst gegn ákveðnum söngvum, palestínskum fánum og merkjum og mótmælendur hafa sætt lögregluofbeldi og handtökum. Í sumum tilfellum hafa mótmæli verið bönnuð með öllu.“
Esther Major yfir rannsóknum í Evrópu hjá Amnesty International.
Sem dæmi hafa yfirvöld í Þýskalandi bannað flest mótmæli sem eru einnig til stuðnings réttinda palestínsks fólks og síðastliðinn þriðjudag tilkynnti æðsti stjórnsýsludómstóll Frakklands ríkisstjórn landsins að það mætti ekki leggja blátt bann á mótmæli sem sýna samstöðu með palestínsku fólki.
Í Bretlandi hafa bréfasendingar frá ráðherrum valdið áhyggjum um að vera tilraun til að hafa áhrif á lögreglustjóra og að bréfin yrðu notuð af skólastjórum sem fyrirsláttur til að takmarka með óhóflegum hætti tjáningar- og fundafrelsi. Amnesty International hefur kallað eftir því að stjórnmálafólk gæti orða sinna til að forðast orðræðu sem veldur sundrungu.
Í Sviss hafa mótmæli sem tengjast átökunum verið bönnuð um helgina í Zürich, Basel-Stadt kantónunni og í Bern hafa öll mótmæli verið bönnuð.
Ríkjum ber lagalega skylda til að tryggja að fólk geti með friðsamlegum hætti tjáð sorg sína, áhyggjur og sýnt samstöðu.
Þar sem fjöldi mótmæla er skipulagður um helgina kallar Amnesty International eftir því að yfirvöld um alla Evrópu verndi fólk og tryggi að það geti tjáð sig og komið saman með friðsamlegum hætti.
