Í nýrri skýrslu Amnesty International fordæma samtökin kúgunarstefnu ríkisstjórnar Nicolás Maduro í Venesúela og greina frá málum níu einstaklinga sem sæta varðhaldi að geðþótta. Amnesty International krefst tafarlausrar lausnar þeirra án skilyrða.
Skýrsla Amnesty International greinir frá málum níu einstaklinga sem voru handteknir að geðþótta á árunum 2018 til 2022. Sum málin eru beintengd pólitísku aðgerðastarfi gegn ríkisstjórn landsins eins og mál Roland Carreño en í öðrum málum voru einstaklingar skotmark vegna fjölskyldutengsla við þriðja aðila sem stjórnvöld álitu tortryggileg eins og tilfelli Emirlendris Benítez. Það hversu ólík málin eru sýnir hversu mikil hættan er fyrir almenning að sæta varðhaldi að geðþótta og öðrum alvarlegum mannréttindabrotum þar sem áhrifanna gætir bæði á meðal þeirra sem eru yfirlýstir andstæðingar stjórnvalda og einstaklinga sem eru ekki pólitískir.
Níu einstaklingar í haldi
Einstaklingarnir níu sem sætt hafa varðhaldi og greint er frá í skýrslunni eru:
- Emirlendris Benítez: móðir og verslunarkona, handtekin í ágúst 2018.
- María Auxiliadora Delgado og Juan Carlos Marrufo: hjón og sérfræðingar, handtekin í mars 2019.
- Roland Carreño: blaðamaður og pólitískur aðgerðasinni, handtekinn í október 2020.
- Guillermo Zárraga: faðir og fyrrum félagi í verkalýðsfélagi, handtekinn í nóvember 2020.
- Dario Estrada: einstaklingur með taugaþroskaröskun og verkfræðingur, handtekinn í desember 2020.
- Robert Franco: kennari og verkalýðsfélagi, handtekinn í desember 2020.
- Javier Tarazona: mannréttindafrömuður og samviskufangi, handtekinn í júlí 2021.
- Gabriel Blanco: aðgerðasinni og starfsmaður í mannúðarmálum, handtekinn í júlí 2021.
„Gögn sýna að kúgunarstefna ríkisstjórnar Nicolás Maduro og mannréttindaneyðin ógna enn réttinum til lífs og frelsis í Venesúela. Skýrsla Amnesty International greinir ekki aðeins frá óréttlátri fangelsun kennara, verkalýðsforingja og mannréttindafrömuða í landinu heldur einnig hvernig dómskerfið er gerræðislegt, aðstæður í fangelsum ómannúðlegar og refsileysi ríkir. Það að varðhaldi að geðþótta sé enn beitt sem kúgunartæki og til að stjórna samfélaginu á ekki að líðast.“
Erika Guevara Rosas svæðisstjóri í málefnum Ameríkuríkja hjá Amnesty International.
Emirlendris Benítez
Emirlendris Benítez, 42 ára, er móðir, systir og verslunarkona sem hefur sætt varðhaldi að geðþótta frá ágúst 2018. Hún var færð í varðhald að ástæðulausu en hún var ásökuð um ofbeldisverk gegn Nicolás Maduro að ósekju fyrir það eitt að vera í sama bíl með þriðju aðilum sem að sögn voru sekir um slíkt verk.
Emirlendris var pynduð þrátt fyrir að vera þunguð og síðan þvinguð til að gangast undir þungunarrof. Hún þarf að notast við hjólastól og hún glímir við margvíslegan, alvarlegan heilsuvanda vegna barsmíða sem hún sætti.
Emirlendris afplánar 30 ára óréttlátan fangelsisdóm í INOF-fangelsinu í Los Teques í Caracas í 30 kílómetra fjarlægð frá fjölskyldu sinni sem neyðist til að færa henni mat, vatn og aðrar nauðsynjar þrátt fyrir mannréttindaneyðina í landinu.

Hjónin María Auxiliadora Delgado og Juan Carlos Marrufo
María Auxiliadora Delgado, 49 ára, og Juan Carlos Marrufo, 52 ára, eru hjón sem eru með tvöfalt ríkisfang en hún einnig með spænskt ríkisfang og hann ítalskt ríkisfang. Þau voru færð í varðhald að geðþótta af fulltrúum öryggisþjónustu hersins (DGCIM) þann 19. mars 2021.
Það virðist sem að einu tengsl þeirra við glæpinn sem þau eru sökuð um að hafa framið séu að María Auxiliadora er systir fyrrum herforingja sem er sagður tengjast tilraun til að ráða Nicolás Maduro af lífi. Þau höfðu ákveðið að reyna eignast barn með aðstoð glasafrjógvunar þegar þau voru handtekin.
Þau eru ekki aðeins þolendur varðhalds að geðþótta heldur hafa þau einnig verið rænd lífsáformum sínum sem m.a. fólust í að stækka fjölskylduna.

Guillermo Zárraga
Guillermo Zárraga, er 59 ára verkfræðingur og fyrrum verkalýðsfélagi innan olíuiðnaðarins sem fulltrúar öryggisþjónustu hersins, DGCIM, handtóku að geðþótta á heimili hans klukkan þrjú að nóttu þann 14. nóvember árið 2020.
Auk hlutverks síns sem leiðtogi verkalýðsfélags í ríkisreknu olíufyrirtæki þá var hann myndaður með leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Juan Guaidó. Ljósmyndin er hluti af ásökunum ríkissaksóknara sem segir hana sönnun um meinta ætlan Zárraga að styðja hermdarverk sem að sögn var runnin undan rifjum fulltrúa á vegum leyniþjónustu Bandaríkjanna.
Ásakanirnar gegn Zárraga eru órökstuddar og af pólitískum rótum runnar. Heilsu hans fer hrakandi þar sem hann hefur hvorki aðgang að drykkjarvatni né nægilegum mat.

Mannréttindabrot
Þessi níu mál í skýrslunni eru birtingarmynd ítrekaðra aðgerða ýmissa öryggissveita á ólíkum tímum og stöðum. Varðhald að geðþótta eru ekki einu mannréttindabrot yfirvalda heldur hafa einnig önnur gróf mannréttindabrot verið framin, þar á meðal pyndingar og önnur grimmileg, ómannúðleg og vanvirðandi meðferð, þvinguð mannshvörf, ósanngjörn málsmeðferð og réttarhöld og ómannúðlegar aðstæður í fangelsum. Þá nota stjórnvöld ítrekað óljósar skilgreiningar á glæpum og falskar ákærur að geðþótta.
„Mál Emirlendris, María Auxiliadora, Juan Carlos og Guillermo eru táknræn fyrir víðtækar og kerfisbundnar árásir á einstaklinga sem taldir eru gagnrýnir á ríkisstjórn Venesúela. Þessi mál heyra ekki fortíðinni til og eru ekki einangruð tilfelli.“
Erika Guevara Rosas svæðisstjóri í málefnum Ameríkuríkja hjá Amnesty International.
Frjáls félagasamtök í Venesúela áætla að um það bil 300 einstaklingar sæti nú varðhaldi að geðþótta í landinu. Samkvæmt samtökunum Foro Penal hafa rúmlega 15.700 óréttmætar fangelsanir átt sér stað frá árinu 2014 sem allar eru af pólitískum rótum runnar.
„Varðhald að geðþótta, pyndingar og þvinguð mannshvörf sem einstaklingar í Venesúela sæta eru glæpir samkvæmt alþjóðalögum sem er ástæða fyrir því að stjórnvöld í Venesúela eru til rannsóknar hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum, argentískum dómstólum sem starfa undir alþjóðlegri lögsögu og eru einnig hjá Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu má ekki minnka.“
Erika Guevara Rosas svæðisstjóri í málefnum Ameríkuríkja hjá Amnesty International.
