Filippseyjar: Ráðist á friðsama mótmælendur og einn myrtur

Hundruð verksmiðjustarfsmanna frá Suður-Filippseyjum hafa tjaldað í Manila frá 27. nóvember síðastliðnum til að mótmæla starfskjörum hjá japönsku verksmiðjunni Sumitomo Fruit Corporation (Sumifru). Starfsmennirnir hafa ítrekað lent í árásum síðan verkfall hófst 1. október 2018. Þá var stéttarfélagi myrtur og kveikt í byggingu stéttarfélagsins auk heimili nokkurra félaga.

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!

Þann 1. október 2018 lýstu 900 verksmiðjustarfsmenn hjá Sumifru, sem tilheyra stéttarfélaginu Namasufa (Nagkahiusang Mamumuo sa Suyapa Farms), yfir verkfalli vegna starfskjara sinna. Mótmælendur hafa ítrekað orðið fyrir hótunum og árásum, auk þess sem félagi var myrtur þann 31. október 2018. Einnig var kveikt í skrifstofu stéttarfélagsins og heimili nokkurra félaga þann 15. desember síðastliðinn.

Starfsmennirnir saka fyrirtækið um að hafa brugðist starfsmönnum hvað varðar almenn starfsréttindi með því að ráða aðeins í tímabundin störf. Það þýðir að starfsmenn fá aldrei fastráðningu sem er ólöglegt samkvæmt filippseyskum lögum. Starfsmenn saka fyrirtækið einnig um að hafa innleitt áætlun þar sem borgað er fyrir hvern hlut framleiddan en það hefur leitt til launalækkunar, ásamt því að hafa ekki samið um almennan kjarasamning við stéttarfélagið. Fyrirtækið neitar þessum ásökunum.

Þann 6. október 2018 neitaði filippseyskur dómstóll beiðni Sumifru um að reka burtu starfsmenn sem mótmæltu á bananaekru fyrirtækisins í Compostela-dalnum. Því er haldið fram í beiðninni að verkfallið hafi kostað fyrirtækið 38 milljónir PhP (90 milljónir ISK).

Þann 27. desember 2018 hélt filippseyska vinnumálastofnunin ráðstefnu fyrir starfsmenn og fulltrúa frá Sumifru með það að markmiði að finna lausn á deilunni, en fulltrúar fyrirtækisins mættu ekki. Önnur ráðstefna var haldin þann 4. janúar 2019 og samkvæmt John Paul Dizon, fundarstjóra stéttarfélagsins, ítrekaði Sumifri áætlun sína um að veita aðeins 140 starfsmönnum, stofnfélögum stéttarfélagsins frá árinu 2008, almenn starfsréttindi.

Samkvæmt alþjóðalögum ber Filippseyjum skylda til að ábyrgjast rétt einstaklings til atvinnu og sanngjarnra og hagstæðra atvinnuskilyrða. Það felur einnig í sér rétt til sanngjarnra launa, rétt til að stofna og ganga í stéttarfélag, ásamt réttindum til að fara í verkfall. Óháð ábyrgð ríkja, er það samfélagslega ábyrgð allra fyrirtækja að virða mannréttindi hvar sem þau eru starfrækt samkvæmt reglum Sameinuðu Þjóðanna er varða viðskipti og mannréttindi (e. UN Guiding Principles on Business and Human Rights).

SMS-félagar hvetja ríkisstjórn Filippseyja tafarlaust til frekari rann­sókna á hótunum og árásum, og að taka ábyrgð á og tryggja öryggi mótmælenda.

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér.