Sádí-Arabía: Mannréttindasinna haldið í einangrun

Baráttukona fyrir mannréttindum, Nassima al-Sada, var handtekin í júní 2018 og hefur verið haldið í einangrun frá febrúar síðastliðnum án ákæru. Mál Nassima er eitt af fjölmörgum í herferð gegn mannréttindasinnum í Sádí-Arabíu. Síðan í maí 2018 hafa a.m.k. 15 mannréttindasinnar verið settir í varðhald án ákæru.

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!

Á meðal þeirra handteknu eru þekktar baráttukonur fyrir mannréttindum, þær Louiain al-Hathloul, Iman al-Nafjan og Aziza al-Yousef. Þær voru sakaðar í ríkistengdum fjölmiðlum um að brjóta hryðjuverkalög (Royal Decree 44/A) með því að stofna „hryðjuverkahóp“ og eiga samskipti við erlenda aðila með það að markmiði að grafa undan öryggi og stöðugleika ríkisins.

Þessi fjöldi handtaka er til marks um þá herferð gegn mannréttindasinnum sem hefur átt sér stað í Sádi-Arabíu þar sem hryðjuverkalög eru notuð til að bæla niður tjáningar-, félaga- og fundafrelsi. Frá byrjun árs 2018 hafa þó nokkrir friðsamlegir mannréttindasinnar fengið þunga fangelsisdóma ásamt því að sæta ferða- og samfélagsmiðlabanni undir ákvæðum hryðjuverka- og netöryggislaga.

Í febrúar 2018 voru tveir mannréttindasinnar dæmdir í fangelsi, Issa al-Nukheifi í sex ára fangelsi og ferðabann og Essam Koshak í fjögurra ára fangelsi og ferðabann fyrir mannréttindabaráttu sína á samfélagsmiðlum í Sádi-Arabíu. Í júní 2018 voru tvær þekktar baráttukonur fyrir mannréttindum, Samar Badawi og Nassima al-Sada, handteknar án ákæru ásamt öðrum aðgerðasinnum í kringum afléttingu á akstursbanni kvenna. Í nóvember 2018 var enn fremur greint frá því að aðgerðasinnar, þar á meðal baráttukonur sem hafa verið í haldi síðan í maí, hafi sætt pyndingum og kynferðisofbeldi sem m.a. hefur leitt eina kvennanna til ítrekaðra tilrauna til sjálfsvígs.

Amnesty International skorar á yfirvöld í Sádi-Arabíu að leysa Nassima og aðra mannréttindasinna úr haldi umsvifalaust!

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!