Átján ára unglingur, Daniel Zeinolabedini, sem er í haldi í Mahabad-fangelsi í Vestur-Azerbaijan héraði í Íran, á hættu á að vera tekinn af lífi. Hann var dæmdur til dauða fyrir manndráp í júní 2018 eftir ósanngjörn réttarhöld þegar hann var aðeins 17 ára. Aftaka væri alvarlegt brot á alþjóðalögum.
Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!
Daniel var handtekinn 26. september 2017 eftir að hafa verið yfirheyrður fyrir mannrán og morð á hinum 19 ára gamla Sadegh Barmaki sem var stunginn og brenndur lifandi. Daniel var ákærður ásamt fjórum öðrum mönnum og þann 3. júní var hann dæmdur til dauða fyrir aðild sína að morðinu. Tveir aðrir þeirra ákærðu voru einnig dæmdir til dauða en tveir voru dæmdir til fangelsisvistar.
Amnesty fordæmir dauðarefsingar og er alfarið á móti þeim í öllum tilfellum undir öllum kringumstæðum, algjörlega óháð því hver á hana yfir höfði sér, hvort sem sá aðili er sekur eða saklaus eða hvernig hún eigi að vera framkvæmd.
Réttarhöldin fóru fram fyrir sérstökum dómstól barna og unglinga í Vestur-Azerbaijan héraði í Íran. Sönnunargögn í málinu voru myndbönd sem birt voru á netinu og sögð tekin upp af Daniel og tveimur öðrum hinna ákærðu. Amnesty International hefur séð nokkur myndbandanna en þau sýna óhugnanleg myndbrot af Daniel og tveimur öðrum mönnum með hinum látna Sadegh Barmaki þar sem hann liggur í bíl blóðugur í andliti og í blóðugum fötum. Myndbandið sýnir einnig hvernig unglingarnir ögra Sadegh fyrir utan bílinn og einn slær hann með kjötexi. Nokkrum dögum síðar fannst lík Sadegh Barmaki brunnið.
Réttarhöld Daniels voru hinsvegar ósanngjörn og fara gegn rétti ungmenna sem sótt eru til saka. Hann hafði ekki aðgang að lögfræðingi fyrr en daginn sem réttarhöldin fóru fram. Daniel segist hafa verið yfirheyrður án lögfræðings þegar hann sat í gæsluvarðhaldi. Skýrslan sem tekin var af honum, ásamt skýrslum sem aðrir ákærðu gáfu án lögfræðings, voru notaðar gegn þeim. Í dómsúrskurðinum neitaði dómstóllinn beiðni lögfræðings Daniels að hann ætti rétt á annarri refsingu en dauðarefsingunni, byggt á 91. grein hegningarlaga sem leyfir dómstólum að beita annars konar viðurlögum þegar um er að ræða einstakling yngri en 18 ára þegar glæpur er framinn, ef vafi liggur fyrir um „andlegan vöxt og þroska” einstaklingsins. Dómstólinn hélt því fram að Daniel hefði náð fullum andlegum þroska og leyfði ekki heilsufarsskoðun.
Amnesty International hefur skráð 93 aftökur ungra fanga í Íran frá 2005 en telur að talan sé mun hærri.
Dauðarefsingin er grimmileg, ómannúðleg og niðurlægjandi. Hún er brot á réttinum til lífs og á ekki að fyrirfinnast í nútíma réttarkerfi.
Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!
