Ný alþjóðleg herferð til varnar fordæmalausri ógn við réttinum til mótmæla á heimsvísu

Fordæmalaus og vaxandi ógn steðjar að réttinum til að mótmæla um heim allan, að sögn Amnesty International sem ýtir nýrri herferð úr vör í dag til að sporna gegn tilraunum stjórnvalda til að grafa undan þessum grundvallarrétti. Þessi alþjóðlega herferð styður við herferð sem Íslandsdeild Amnesty International hóf í fyrra og ber heitið: Án mótmæla verða engar breytingar.

Fordæmalaus og vaxandi ógn steðjar að réttinum til að mótmæla um heim allan, að sögn Amnesty International sem ýtir nýrri herferð úr vör í dag til að sporna gegn tilraunum stjórnvalda til að grafa undan þessum grundvallarrétti. Þessi alþjóðlega herferð styður við herferð sem Íslandsdeild Amnesty International hóf í fyrra og ber heitið: Án mótmæla verða engar breytingar.

Réttur til að mótmæla

Herferð Amnesty Internati­onal, Án mótmæla verða engar breyt­ingar, vekur athygli á því að vernda þurfi friðsöm mótmæli, nauðsyn þess að standa með þeim sem eru skot­mark stjórn­valda og styðja hreyf­ingar sem berjast fyrir umbótum og mann­rétt­indum. Á sama tíma sæta jaðar­hópar mismunun og mæta enn frekari hindr­unum.

„Á undan­förnum árum höfum við orðið vitni að mörgum af stærstu mótmæla­hreyf­ingum síðustu áratuga. Black Lives Matter, MeToo og hreyf­ingar gegn lofts­lags­breyt­ingum hafa orðið millj­ónum einstak­linga um heim allan hvatning til að halda á götur úti eða á netið og krefjast jafn­réttis, rétt­lætis, rétt­arins til að afla sér lífs­við­ur­væris og þess krafist að bundið sé enda á kynbundið ofbeldi og mismunun. Annars staðar, hafa þúsundir einstak­linga risið upp gegn ofbeldi og morðum af hálfu lögreglu ásamt kúgun og undirokun ríkis­valdsins,“ segir Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

„Nánast undantekingarlaust hefur þessari bylgju fjöldamótmæla verið mætt með tálmunum og ofbeldi af hálfu stjórnvalda. Í stað þess að greiða fyrir réttinn til að mótmæla ganga yfirvöld sífellt lengra í tilraun sinni til að takmarka þennan rétt.  Því ákváðu stærstu mannréttindasamtök í heimi, að hefja þessa herferð á þessum tímapunkti. Það er kominn tími til að rísa upp gegn valdhöfum og minna þá á óafsalanlegan rétt okkar til að mótmæla, tjá óánægju okkar og krefjast breytinga í sameiningu á frjálsan og opinberan hátt.“

Agnès Callamard aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

Hertar aðgerðir

Fjöl­mörg aðkallandi mál, eins og lofts­lags­váin, vaxandi ójöfn­uður og ógn við lífs­við­ur­væri fólks, kerf­is­bundnir kynþátta­for­dómar og kynbundið ofbeldi, hafa ýtt enn frekar undir nauðsyn samstöðu­að­gerða. Ríkis­stjórnir hafa brugðist við með laga­setn­ingum þar sem ólög­mætar takmark­anir eru settar á réttinn til að mótmæla. Til að mynda var blátt bann sett á mótmæli í Grikklandi og á Kýpur þegar kórónu­veirufar­ald­urinn stóð sem hæst. Í Bretlandi inni­halda ný lög ákvæði sem veita lögreglu víðtæk völd, t.d.heimild til að banna „hávær mótmæli“. Frá árinu 2011 hefur legið bann við póli­tískum mótmælum í miðborg Dakar í Senegal sem útilokar mótmæli nærri öllum opin­berum bygg­ingum stjórn­valda.

Ríkis­stjórnir margra landa hafa í auknum mæli sett á neyð­arlög sem fyrir­slátt til að herða eftirlit með mótmælum. Þetta var áber­andi þegar kórónu­veirufar­ald­urinn stóð sem hæst, til að mynda í Taílandi. Í Lýðveldinu Kongó setti ríkis­stjórnin á neyð­ar­herlög sem veittu lögreglu og her gríð­arleg völd m.a. til að takmarka mótmæli í héruð­unum Ituri og Norð­ur-Kivu allt frá maí 2021.

Skrímslavæðing mótmælenda

Stjórn­völd víða um heim rétt­læta takmark­anir á mótmælum með þeim rökum að þau ógni alls­herj­ar­reglu og með því að draga upp mynd af mótmæl­endum sem „frið­arspillum“, „óeirð­ar­seggjum“ og jafnvel „hryðju­verka­fólki“.

Með því að skrímslavæða mótmæl­endur hafa stjórn­völd víðs vegar rétt­lætt nálgun sem sýnir mótmæl­endum enga vægð. Stjórn­völd hafa innleitt og misbeitt óljósri og grimmi­legri örygg­is­lög­gjöf, beitt þung­vopn­aðri löggæslu og gripið til marg­vís­legra aðgerða til að fæla fólk frá því að mótmæla. Þessi nálgun var sýnileg í Hong Kong þar sem þjóðarör­ygg­is­lög­gjöf og víðtækri skil­grein­ingu á „þjóðarör­yggi“ hefur verið beitt að geðþótta. Á Indlandi hefur ólög­mætri hryðju­verk­lög­gjöf og lögum um uppreisn­ar­áróður ítrekað verið beitt gegn mótmæl­endum og mann­rétt­inda­fröm­uðum.

Hervæðing lögreglu

Enda þótt stjórnvöld hafi lengi beitt hörku í löggæslu á mótmælum þá hefur harkan aukist enn frekar á undanförnum árum. Skaðaminni vopnum, eins og kylfum, piparúða, táragasi, handsprengjum sem valda skyntruflunum, vatnsbyssum og gúmmískotum hefur ítrekað verið misbeitt af öryggissveitum og lögreglu.

Frá því upp úr aldamótum hefur Amnesty International skrásett aukna hervæðingu í viðbrögðum stjórnvalda við mótmælum, meðal annars með beitingu herafla og hergagna.

Í löndum eins og Síle og Frakklandi eru öryggissveitir vel brynjaðar frá toppi til táar og hafa sér til stuðnings brynvarða bíla, herflugvélar, eftirlitsdróna, byssur og árásarvopn, auk sérstakra hljóðvopna sem geta valdið ógleði og skaðað heyrn.

Þegar uppreisn átti sér stað í Mjanmar í kjölfar valdaráns árið 2021 beitti herinn ólögmætu, banvænu afli gegn friðsömum mótmælendum. Rúmlega 2000 mótmælendur hafa verið myrtir samkvæmt eftirlitsaðilum og ríflega 13.000 handteknir frá því að herinn tók við völdum í landinu.

Ójöfnuður og mismunun

Einstaklingar sem sæta mismunun og búa við ójöfnuð á grundvelli kynþáttar, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, trúar, aldurs, fötlunar, atvinnu, efnahagslegri- eða félagslegrar stöðu verða fyrir meiri áhrifum vegna takmarkana á réttinum til að mótmæla og sæta harðari þvingunum en aðrir.

Konur og  hinsegin fólk sæta margs konar kynbundnu ofbeldi og jaðarsetningu og félagshættir og lagasetningar hafa annars konar áhrif á líf þeirra. Í löndum eins og Súdan, Kólumbíu og Hvíta-Rússlandi hafa konur sætt kynferðisofbeldi í kjölfar þátttöku í mótmælum og í Tyrklandi hafa gleðigöngur verið bannaðar í árafjöld.

„Herferð okkar kemur á hárréttum tíma. Stjórnvöld kappkosta að grafa undan þessum dýrmæta rétti okkar og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að berjast á móti þessari þróun. Fjöldi mótmælenda hefur verið myrtur á undanförnum árum og að hluta til í nafni þeirra er brýnt að láta okkar eigin rödd heyrast núna og verja rétt okkar til tjá valdhöfum skoðanir okkar með mótmælum, bæði á götum úti og á netinu.“
 

Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

Netnámskeið

Smelltu hér og kynntu þér rétt þinn til að mótmæla og taktu námskeiðið okkar endurgjaldslaust.