Yfirlýsing Íslandsdeildar Amnesty International vegna brottvísana fólks til viðtökuríkis 

Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Útlend­inga­stofnun eru 197 manns á lista sem á að vísa úr landi á næstu dögum. Flestum þeirra verði vísað til Grikklands en að fjölskyldur með börn fái að vera um kyrrt. Í tilefni þessa telur deildin ástæðu til að senda íslenskum yfirvöldum eftirfarandi yfirlýsingu.  

Nú í ár eru 74 ár síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt. Í fjórtándu grein hennar segir: „Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“  Réttur flóttamanna er tryggður í alþjóðasamningum og er þeirra mikilvægastur flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1951.   

Ríkisstjórnir Evrópuríkja hafa á undanförnum árum þróað með sér sameiginlega stefnu í málefnum flóttafólks og gert ýmsar ráðstafanir sem takmarka aðgang flóttafólks að yfirráðasvæði þeirra. Amnesty International hefur ítrekað gagnrýnt að hin evrópska samvinna í málefnum flóttafólks hefur leitt til þess að almenn viðmið framkvæmdaráðs Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru ekki í heiðri höfð.  Samtökin hafa hvatt ríkisstjórnir til að tryggja að aðgerðir þeirra og stefna grafi ekki undan þeirri vernd sem flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og aðrir alþjóðlegir mannréttindasamningar veita.   

Það er mikið áhyggjuefni að íslensk yfirvöld taka ítrekað umsóknir um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar og senda þess í stað umsækjendur aftur til fyrsta viðtökuríkis innan Schengen, sérstaklega Grikklands. Aðbúnaður flóttafólks í Grikklandi hefur m.a. verið gagnrýndur af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og  Amnesty International. Fjölmargar heimildir, svo sem skýrslur Evrópuráðsins, og mannréttinda- og frjálsra félagasamtaka gefa til kynna að raunveruleg staða flóttafólks í Grikklandi sé verulega ábótavant.

Í nýlegum úrskurði kærunefndar útlendingamála kemur beinlínis fram að það sé mat hennar að það sé ljóst af fyrirliggjandi gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafi alþjóðlega vernd í Grikklandi lifi oft á jaðri samfélagsins og búi í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Í öðrum úrskurði kærunefndarinnar segir að einstaklingar sem njóti alþjóðlegrar verndar í Grikklandi hafi að formi til ýmis réttindi þar í landi, sem ekki séu þó í öllum tilvikum virk, m.a. vegna álags á innviði í ríkinu. 

Samkvæmt skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) frá því í júní 2021 hafa einstaklingar með alþjóðlega vernd mætt erfiðleikum við að fá útgefið skattnúmer hjá grískum stjórnvöldum. Útgáfa skattnúmers er grundvöllur þess að geta lifað og starfað löglega í Grikklandi og þess að einstaklingar geti sótt aðstoð og réttindi hjá grískum stjórnvöldum. Skattnúmerið er forsenda þess að geta sótt um félagslega aðstoð, til að vinna og til þess að gera samninga um leigu á húsnæði.  

Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 að dæmi séu um að flóttafólk sé beitt ofbeldi, þ. á m. af hendi grísku lögreglunnar.  

Yfirvöldum ber að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef viðkomandi hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Með sérstökum ástæðum er átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Skal líta til þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, svo sem ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki.  

Ekki má flytja umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef veigamikil rök standa til þess að raunveruleg hætta sé á að hann sæti þar eða við flutninginn ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Sú er staðan ef sinnuleysi stjórnvalda viðtökuríkis hefur þær afleiðingar að einstaklingur sem að öllu leyti er háður stuðningi ríkisins, t.d. vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann geti ekki mætt grundvallarþörfum sínum, og sem grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn.  

Þá er brýnt að benda á að mikilvægt er að taka sérstaklega tillit til stöðu og þarfa kvenna og stúlkna við mat á umsóknum fólks um alþjóðlega vernd. Kyn og kyngervi skiptir miklu máli þegar fjallað er um málefni flóttafólks. Það er staðreynd að staða kvenna í neyð og á flótta er sérstaklega viðkvæm þar sem þær standa frammi fyrir fjölþættri mismunun, svo sem á kynbundinni mismunun og kynferðislegu ofbeldi. Íslensk stjórnvöld ættu að byggja flóttamannastefnu sína á jafnrétti þar sem tekið er mið af veruleika fólks á flótta, kvenna, barna og annarra minnihlutahópa, líkt og utanríkisstefna Íslands gerir. Jafnréttissjónarmið verða að vera leiðarljós í lögum um útlendinga og allri móttöku flóttafólks íslenskra stjórnvalda. Fjöldamörg dæmi hafa sýnt hvernig Ísland hefur tekið á móti kvótaflóttafólki með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi, en það sama er ekki upp á teningnum varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd.  

Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í viðtökuríki og einstaklingsbundinna aðstæðna hvetur Íslandsdeild Amnesty International íslensk yfirvöld til að endurskoða stranga stefnu sína um að taka ekki til efnislegrar meðferðar mál einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi. Einnig vonar deildin að upplýsingar þess efnis að barnafjölskyldum verði ekki vísað úr landi séu á rökum reistar. Þá leggur deildin áherslu á að yfirvöldum er skylt að taka ákvarðanir í málum einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi.