Árleg herferð Amnesty International, Þitt nafn bjargar lífi, árið 2021 gekk vel en að þessu sinni söfnuðust alls 66.180 undirskriftir vegna tíu mála á aðgerðakort, í sms-aðgerðaneti, netákalli og á vefsíðu herferðarinnar, auk þess sem nokkur hundruð skrifuðu stuðningskveðjur til þolenda og fjölskyldna þeirra.
Stórsigur Háteigsskóla
Háteigsskóli í Reykjavík kom sá og sigraði í keppninni MANNRÉTTINDAGRUNNSKÓLI ÁRSINS í ár. Nemendur skólans söfnuðu hvorki meira né minna en 7.192 undirskriftum til stuðnings þolendum mannréttindabrota sem sjónum var beint að í herferðinni árið 2021. Þá var skólinn einnig hlutskarpastur í fjölda undirskrifta miðað við nemendafjölda og safnaði hver nemandi að meðaltali 51 undirskrift. Alþjóðaskólinn á Íslandi, sem lenti í öðru sæti, safnaði 538 undirskriftum í heildina eða 15 undirskriftum á hvern nemanda. Í framhaldsskólakeppninni árið 2021 hlaut Kvennaskólinn í Reykjavík titilinn MANNRÉTTINDAFRAMHALDSSKÓLI ÁRSINS með 1.416 undirskriftum. Þá sigraði Menntaskóli Borgarfjarðar með fjölda undirskrifta miðað við nemendafjölda en skólinn safnaði 472 undirskriftum í heildina eða rúmlega fjórum undirskriftum á hvern nemanda.
Mál Ciham og Mikita áhrifamest
Flestar undirskriftir söfnuðust vegna átakanlegra mála tveggja ungmenna í haldi stjórnvalda, Ciham Ali frá Erítreu og Mikita Zalatarou frá Hvíta-Rússlandi.
Alls tóku 13 staðir um land allt þátt í undirskriftasöfnun á aðgerðakort, á kaffihúsum, bókasöfnum og jólamörkuðum og gekk söfnunin vel en samtals náðist að safna 7.051 undirskrift á kortin.
Heimsókn Wendy Galarza hápunktur
Hápunktur herferðarinnar var heimsókn Wendy Andreu Galarza, aðgerðasinna og feminista, og Edith Olivares Ferreto, framkvæmdastjóra Amnesty International í Mexíkó, til landsins. Mál Wendy var eitt þeirra tíu mála sem tekin voru fyrir í Þitt nafn bjargar lífi en hún greindi frá máli sínu og baráttu sinni gegn ofbeldi og morðum á konum í heimalandi sínu á málþingi sem haldið var í Háskóla Íslands í lok nóvember.
Til að minna á herferðina voru einnig ýmsar áberandi byggingar víða um land baðaðar gulu ljósi og gámi komið fyrir á Skólavörðuholti til að vekja fólk til umhugsunar um þær skelfilegu aðstæður sem talið er Ciham Ali frá Erítreu búi við í haldi stjórnvalda.
Íslandsdeild Amnesty International óskar baráttufólki fyrir mannréttindum innilega til hamingju með árangurinn að þessu sinni. Samtakamátturinn skiptir öllu máli!



