Almennir borgarar í bænum Izium í austur-Úkraínu upplifa mannúðarhrylling þar sem rússneskar hersveitir varpa sprengjum á bæinn linnulaust. Þetta kemur fram í nýjum gögnum frá Amnesty International.
Íbúar í Izium hafa sætt stanslausum árásum síðan 28. febrúar, matar- og vatnsbirgðir eru að klárast og þeir íbúar sem enn eru í bænum þurfa að fela sig neðanjarðar.
Frá 9. til 12. mars tóku rannsakendur Amnesty International viðtöl við 26 íbúa Izium, strax eftir brottflutninga til Svyatohirsk, bæjar í Donetsk-héraði sem er að mestu undir stjórn Úkraínu og hefur líka sætt látlausum árásum.
Tugir lítilla bæja og þorpa í Úkraínu eru undir stöðugum árásum og örvæntingarfullir íbúar eru fastir vegna skothríða og umsáturs rússneskra hersveita , segir Marie Struthers framkvæmdarstjóri Amnesty í Austur-Evrópu og Mið-Asíu.
Flest svæði bæjarins eru án rafmagns, gass, hita og fjarskiptasambands vegna árásanna.
„Ég veit ekki hvernig fólkið mun komast af“
Viðmælendur sögðu frá árásum þar sem fólk hafði særst og látið lífið ásamt því að ýmis mannvirki hefðu eyðilagst eins og skólar, leikskólar, heilsugæslur og matvöruverslanir. Sumar af þessum árásum hafa verið ónákvæmar sem leggja líf almenna borgarara í hættu og eru því brot á alþjóðalögum.
Myndir úr gervitungli frá 12. mars sýna gíga og eyðileggingu hjá skólum og spítölum.
Svitlana, 72 ára kona á flótta, hefur dvalist í Izium síðan hún flúði frá Donetsk sem hefur frá 2014 verið undir stjórn vopnaðra hópa sem studdir eru af Rússlandi.
Hún sagði: „þegar þeir byrjuðu að varpa sprengjum á okkur 3. eða 4. mars gátum við ekki farið út lengur. Það var verið að skjóta flaugum allan sólahringinn. Ef þetta heldur svona áfram munu allir íbúar bæjarins láta lífið.“
Síðan árásir hófust hafa verslanir lokað og fólkið í Izium hefur verið algjörlega háð mannúðaraðstoð og þeim matarbirgðum sem það á.
Tetyana sem dvaldi í skýli í bænum með fimm mánaða gamalt ungabarn sitt sagði: „þegar við flúðum voru þrír fimm lítra brúsar eftir fyrir 55 einstaklinga. Ég veit ekki hvernig fólkið mun komast af.“
Mannúðaraðstoð hefur ekki skilað sér til allra íbúa vegna erfiðra aðstæðna.
Þann 9. mars átti að flytja 5000 einstaklinga frá Izium en vegna árása tókst einungis að flytja 250. Daginn eftir voru 2000 einstaklingar fluttir. Auk yfirvalda á svæðinu tóku sjálfboðaliðar og aðgerðasinnar þátt í að flytja fólk á einkabílum. Margir einstaklingar kusu eða neyddust til að verða eftir, sérstaklega eldra fólk og fólk með fötlun.
Alþjóðleg mannúðarlög banna árásir á almenna borgara, bæði ónákvæmar sem leggja líf þeirra í hættu og af ásettu ráði. Rússneski herinn verður að gera sérstakar varúðarráðstafanir til að vernda almenna borgara og almenn svæði.
Úkraínski herinn verður líka að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda almenning, þar á meðal að forðast hernaðaraðgerðir í íbúahverfum.
Amnesty International telur innrás Rússa í Úkraínu vera árás á sjálfstætt ríki sem er bannað samkvæmt alþjóðalögum nema í sjálfsvörn eða með leyfi örygissráðs Sameinuðu þjóðanna!
