Leiðtogar G20-ríkjanna hafa í yfirlýsingu sinni í lok leiðtogafundarins í Róm síðustu helgi gefið loforð um að kanna leiðir til að hraða bólusetningum í heiminum og vinna að því að ná markmiði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að 40% íbúa hvers lands í heiminum séu bólusettir í enda árs.
„Leiðtogar G20 virðast vera að segja réttu hlutina. En í ljósi þess að fimm milljónir einstaklinga hafa látið lífið í faraldrinum, eru orð ekki nóg. Þessi óljósu loforð eru lítilsvirðing við fólkið sem hefur látið lífið og fólkið sem lifir enn í ótta við kórónuveirusmit.“
Tamaryn Nelson sérfræðingur um réttinn til heilsu, Amnesty International.
Nú eru aðeins tveir mánuðir eftir af árinu og aðeins róttækar aðgerðir geta jafnað dreifingu bóluefnaskammta. Ef við höldum okkur á sömu braut mun faraldrinum aldrei ljúka.
Það má engan tíma missa
„Við krefjumst aðgerða sem fyrst. Mörg G20-ríki eiga miklar umframbirgðir af bóluefnaskömmtum sem gætu endað með að fara til spillis. Amnesty International hefur komist að þeirri niðurstöðu að 500 milljónir skammta gætu verið nýttir strax ef þeim yrði dreift til lágtekjulanda. Hins vegar var ekkert sagt um mögulega dreifingu í yfirlýsingunni.”
Tamaryn Nelson
Það er ekki of seint fyrir stóru lyfjafyrirtækin að gera það sem er rétt og uppfylla mannréttindaskyldur sínar. Í enda mánaðarins munu aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (e. WTO) hittast í Genf til að ræða tímabundna undanþágu frá samningi um hugverkaréttindi í viðskiptum (e. TRIPS). Lyfjafyrirtækin verða að hætta að berjast gegn undanþágunni svo að framleiðsla bóluefnanna geti aukist og hver einasti einstaklingur í heiminum eigi kost á bólusetningu gegn kórónuveirunni.
Skýrsla Amnesty International, A Double Dose of Inequality: Pharma companies and the Covid-19 vaccines crisis, greinir frá því hvernig sex helstu lyfjaframleiðendur Covid-19 bóluefnanna ýta undir mannréttindaneyð. Lestu meira hér.
100 dagar til stefnu: Tveir milljarðar bóluefnaskammta núna! er yfirskrift herferðar Amnesty International þar sem krafist er að:
- Tveimur milljörðum bóluefnaskömmtum verði úthlutað til lágtekjulanda og lægri-meðaltekjulanda fyrir lok árs til að ná markmiði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að 40% fólks í heiminum verði bólusett þá.
- Ríki heims dreifi hundruðum milljóna umframbirgða af bóluefnaskömmtum sem þau hafa sankað að sér og að lyfjaframleiðendurnir tryggi að a.m.k. helmingi þessara skammta verði dreift til fátækari landa.
Skrifaðu undir ákallið hér.
