Paragvæ: Krefjumst þess að börn fái kynfræðslu í skólum

Á hverjum degi eignast tvær stúlkur yngri en fjórtán ára barn að meðaltali. Paragvæsk stjórnöld geta innleitt menntastefnu sem virkar en þau hafa ekki gert það.

Taktu þátt í starfi Amnesty og skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!

Í Paragvæ er hæsta hlutfall þungana unglingstúlkna í Suður-Ameríku. Árlega eru skrásettar um 20.000 þunganir stúlkna á aldrinum 10-19 ára þar í landi. Fjöldi þeirra er afleiðing kynferðisofbeldis og þar af eru rúmlega 80% ofbeldistilfella innan fjölskyldu. 

Reynslan sýnir að kynfræðsla getur verið forvörn gegn kynferðisofbeldi og dregið það fram í dagsljósið. Stúlkur öðlast færni til að bera kennsl á og vekja máls á kynferðisofbeldi samhliða því að breyta hugmyndum um kynhlutverk og samskiptamynstur sem ýta undir kynferðisofbeldi.

Menntamálaráðherra hefur hins vegar bannað kynfræðslu í skólum og á sama tíma hefur hugtakinu kyn verið eytt úr almennu námsefni. Þetta sýnir hvernig paragvæsk stjórnvöld hafa brugðist skyldu sinni til að virða rétt kvenna til heilsu, menntunar og frelsis frá ofbeldi.

Sms-aðgerðanetið krefst þess að paragvæsk stjórnvöld taki af skarið og innleiði nýja menntastefnu. Engin stúlka ætti að vera þvinguð inn í móðurhlutverkið.