Belarús: Leysið baráttukonu úr haldi

Marfa Rabkova er baráttukona fyrir mannréttindum í Hvíta-Rússlandi og hefur unnið fyrir Viasna, hreyfingu sjálfboðaliða, sem er einn öflugasti mannréttindahópurinn í Hvíta-Rússlandi. Viasna fylgist með og skráir mannréttindabrot í landinu. Marfa var handtekin að geðþótta þann 17. september 2020 og hefur verið í varðhaldi síðan og bíður réttarhalda. Hún á yfir höfði sér 12 ára fangelsisdóm verði hún dæmd sek fyrir upplognar sakir.

Frá upphafi hefur Viasna sætt afskiptum stjórnvalda en eftir umdeildar forsetakosningar í ágúst 2020 hefur harkan aukist. Meðlimir Viasna hafa sætt handtökum, varðhaldi og ákærum fyrir mannréttindastörf sín. 

Marfa var fyrst í þeirra hópi til að vera handtekin. Hún er ákærð fyrir að kynda undir hatri gagnvart lögreglu fyrir þátt sinn í að afhjúpa varðhald að geðþótta, pyndingar og aðra illa meðferð af hálfu yfirvalda gegn friðsömum mótmælendum. Það er ekki glæpur að skrásetja mannréttindabrot. 

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi herja á borgarleg samtök og hefur fjölmörgum samtökum verið gert að hætta starfsemi.

Marfa er baráttukona fyrir mannréttindum sem herjað er á vegna mannréttindastarfa hennar.  

SMS-félagar krefjast þess að Marfa Rabkova verði leyst úr haldi strax.