Morðið á Georg Floyd í haldi lögreglu beindi sjónum að sögulegum og kerfisbundnum kynþáttafordómum sem enn ríkja, ekki einungis í Bandaríkjunum heldur um heim allan. Amnesty International ákvað í kjölfarið að líta inn á við og kanna hvort uppbygging og starfsemi aðalstöðva samtakanna, sem eiga sér næstum 60 ára sögu, viðhaldi óafvitandi rótgrónum kynþáttafordómum.
Einmitt vegna mikilvægi málstaðarins var ákveðið að kanna stöðuna til að samtökin berjist ekki aðeins gegn kynþáttafordómum í orði heldur einnig á borði. Samtökin létu gera óháða og sjálfstæða rannsókn um kynþáttafordóma innan aðalstöðva samtakanna. Hewlett Brown framkvæmdi rannsóknina með rýnihópum starfsfólks aðalstöðvanna. Skýrslu með niðurstöðunum má finna hér.
Niðurstöðurnar eru vissulega óþægilegar en samt sem áður mikilvægar. Þar kemur fram að birtingamyndir kynþáttafordóma sem starfsfólk fann fyrir hafi verið margvíslegar. Það þarf að ráðast að rótum vandans með virkum hætti. Sem leiðandi alþjóðleg mannréttindasamtök er mikilvægt að fyrsta skref samtakanna í átt að raunverulegum breytingum sé að greina og viðurkenna með gagnsæjum hætti flókið rótgróið valdakerfi innan samtakanna sem byggir á kynþáttafordómum og mismunun.
Aðgerðir sem meðal annars verður farið í:
- Endurskoða ráðningarferlið
- Fá utanaðkomandi aðila til að leiða þjálfun gegn kynþáttafordómum innan aðalstöðva samtakanna
- Meta ferlið sem tekur við þegar kvartanir eða uppljóstranir um kynþáttafordóma berast frá starfsfólki
- Leita leiða til að ýta undir samræður innan samtakanna um jafnrétti
Þetta er aðeins upphafið að löngu ferli til að tryggja að samtökin berjist gegn kynþáttafordómum og mismunun af heilum hug og á allan hátt. Þannig getum við verið hluti af þeim breytingum sem við köllum eftir í mannréttindastarfi okkar.
