Áfrýjunardómstóll í Suður-Súdan felldi úr gildi dauðadóm yfir Magai Matiop Ngong sem var aðeins 15 ára þegar brotið átti sér stað. Mál hans hefur verið sent áfram til hæstaréttar til að kveða upp viðeigandi dóm í stað dauðadómsins. Magai var fluttur af dauðadeild þann 29. júlí. Magai var dæmdur fyrir morð árið 2017 sem hann sagði að hefði verið slys. Hann fékk ekki lögfræðing við fyrstu réttarhöldin.
Mál Magai Matiop Ngong var hluti af alþjóðlegri herferð Amnesty International, Þitt nafn bjargar lífi, í lok ársins 2019. Fólk um heim allan skrifaði undir ákall til forseta Suður-Súdan, Salav Kjir, um að ógilda dauðadóm Magai.
Rúmlega 765 þúsund einstaklingar um heim allan gripu til aðgerða og sýndu Magai stuðning sinn. Á Íslandi söfnuðust 8.630 undirskriftir til stuðnings máli hans auk þess var 31 stuðningskveðja send til Magai.
„Við fögnum úrskurði áfrýjunardómstólsins um að fella úr gildi dauðadóm yfir Magai Matiop Ngong. Samkvæmt alþjóðalögum og lögum í Suður-Súdan er bannað að dæma börn yngri en 18 ára til dauða. Magai er einn af þeim heppnu. Að minnsta kosti tveir aðrir einstaklingar, sem voru börn þegar brotin voru framin, hafa verið teknir af lífi í landinu frá maí 2018. Líf þeirra var tekið frá þeim líkt og vonir fjölskyldu þeirra.“
Deprose Muchena, framkvæmdastjóri Amnesty International í austurhluta og suðurhluta Afríku.

