Írönsk kona af kúrdískum uppruna pynduð

Leyniþjónustan í Íran neitar Zeynab Jalalian, íranskri konu af kúrdískum uppruna, um aðgengi að heilbrigðisþjónustu til að þvinga fram játningu frá henni á myndbandi. Zeynab glímir við alvarlegar aukaverkanir eftir að hafa veikst af kórónuveirunni.  

Þann 29. apríl 2020 var Zeynab Jalalian flutt í fangelsi fjarri fjölskyldu sinni frá öðru fangelsi þar sem hún hafði verið í mörg ár. Í símtali við fjölskyldu sína tjáði Zeynab þeim að hún hefði greinst með kórónuveiruna og fyndi fyrir öndunarerfiðleikum. Hún var loks flutt á spítala þann 8. júní þar sem hún var skoðuð en send aftur í fangelsið. Henni var tjáð að ef hún myndi ekki iðrast og játa sök á myndbandi fengi hún ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu og yrði áfram í fangelsinu langt frá fjölskyldu sinni. 

Zeynab hóf hungurverkfall í júní 2020 til að fara fram á flutning í fangelsið nærri fjölskyldu sinni. Henni var haldið í einangrun í þrjá mánuði og fékk ekki að hitta fjölskyldu sína. 

Í nóvember 2020 hringdi hún í fjölskyldu sína úr enn öðru fangelsinu í borginni Yazd. Hún hefur lýst þessum flutningum sem andlegum pyndingum en í hvert skipti þarf hún að aðlagast nýju kerfi, föngum og fangavörðum. 

Zeynab hefur verið í haldi síðan hún var handtekin að geðþótta í mars 2008  vegna aðgerðastarfs fyrir stjórnmálaflokkinn (PJAK) þar sem hún barðist fyrir valdeflingu kúrdískra kvenna. Hún var dæmd til dauða snemma árs 2009 fyrir „óvild í garð guðs“ en  dómnum var breytt í lífstíðarfangelsi í desember 2011. 

Vinnuhópur Sameinuðu þjóðanna um óréttmætar fangelsanir hefur farið fram á lausn Zeynab Jalalian þar sem hún situr í fangelsi fyrir það eitt að hafa nýtt tjáningarfrelsi sitt. Það telst til pyndinga að neita föngum um heilbrigðisþjónustu þegar þeir þurfa á því að halda.  

SMS-félagar krefjast þess að Zeynab verði látin laus og hljóti tafarlaust læknisþjónustu.