Dóminíska lýðveldið: Tækifæri til að afglæpavæða þungunarrof

Þingið í Dóminíska lýðveldinu vinnur nú að umbótum á hegningarlögum í landinu. Þar á meðal er verið að ræða hvort eigi að afglæpavæða þungunarrof við ákveðin skilyrði. Hundruð aðgerðasinna tjalda nú fyrir utan þinghúsið og krefjast þess að þingmenn styðji þessar breytingar.

Taktu þátt í starfi Amnesty og skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!

Unnið hefur verið að umbótum á hegningarlögum í landinu í nokkur ár. Samkvæmt núverandi lögum eiga konur sem leitast eftir þungunarrofi og þau sem bjóða slíka þjónustu í hættu á að hljóta refsingu óháð kringumstæðum. Árið 2010 tók í gildi ný stjórnarskrá sem skilgreindi réttinn til lífs frá „getnaði til dauða”.  

Ný hegningarlög voru samþykkt árið 2014 þar sem þungunarrof var afglæpavætt undir þremur kringumstæðum: þungun ógnar lífi konu eða stúlku, fóstrið er ólífvænlegt og þungun er afleiðing nauðgunar. Hinsvegar felldi þingið þessar breytingar úr gildi stuttu síðar. Núverandi forseti Dóminíska lýðveldisins, Luis Abinader, styður afglæpavæðinguna og þingmönnum fer fjölgandi sem eru á sama máli. 

Rannsóknir sýna að algjört bann gegn þungunarrofi fækkar ekki aðgerðum heldursetur líf kvenna í hættu vegna ólögmætra og óöruggra aðgerða. Hægt er að koma í veg fyrir dauðsföll kvenna og stúlkna vegna þessa með breytingum á lögunum.

SMS-félagar krefjast þess að þingið samþykki umbætur á hegningarlögum til að sinna mannréttindaskyldum sínum og vernda réttindi kvenna.