Quinn Moon og Tang Kai-yin, tveir af þeim tólf einstaklingum frá Hong Kong sem handteknir voru í ágúst 2020 af kínversku strandgæslunni, hafa verið í haldi í næstum átta mánuði án þess að hafa fengið að hitta fjölskyldu sína eða lögfræðinga. Fjölskyldur þeirra hafa ítrekað óskað eftir að eiga við þau samskipti án árangurs. Ástand þeirra og heilsufar er mikið áhyggjuefni því bæði eru þau með undirliggjandi sjúkdóma.
Eftir óréttlát réttarhöld hlutu Quinn Moon og Tang Kai-yin tveggja og þriggja ára fangelsisdóm fyrir að skipuleggja hópferð yfir landamærin. Þau voru í kjölfarið flutt í sitthvort fangelsið. Átta einstaklingar til viðbótar úr´ þessum tólf manna hópi voru dæmdir í sjö mánaða fangelsi fyrir að fara yfir landamærin.
Síðan hópurinn var gripinn í ágúst 2020 hafa kínversk stjórnvöld neitað þeim um val á lögfræðingum.
Amnesty International hefur skráð fjölda atvika þar sem einstaklingum í haldi á meginlandi Kína, margir sem berjast fyrir mannréttindum, er neitað um að hitta lögfræðinga sem þeir eða fjölskyldur þeirra hafa valið.
Sms – félagar krefjast þess að Quinn Moon og Tang Kai-yin fái að hitta fjölskyldu sína og lögfræðinga tafarlaust og að þau hljóti ótakmarkaðan aðgang að læknisþjónustu ef þau óska þess.
