Þegar Ciham Ali var 15 ára reyndi hún að yfirgefa Erítreu en stjórnvöld handtóku hana. Ekki hefur sést til hennar síðan og nú eru liðin átta ár. Hjálpaðu okkur að finna Ciham og leysa úr haldi.
Taktu þátt í starfi Amnesty og skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér!
Ciham var handtekin þegar hún reyndi að flýja frá Erítreu til Súdan í desember 2012. Faðir hennar, Ali Abdu var ráðherra í ríkisstjórn Isaias Afwerki í Erítreu en hann hafði snúið baki við ríkisstjórninni og flúið stuttu áður.
Ciham hefur nú verið í haldi í yfir átta ár. Fjölskylda hennar hefur hvorki séð né heyrt frá henni síðan hún var handtekin og hefur ekki hugmynd um hvar hún er niðurkomin. Um er að ræða þvingað mannshvarf sem er glæpur samkvæmt alþjóðlegum lögum.
Ciham er bæði með eritrískan og bandarískan ríkisborgararétt en þrátt fyrir það hafa bandarísk stjórnvöld ekki skipt sér af málinu. Amnesty International telur bandarísk stjórnvöld hafa brugðist því að vernda ríkisborgara sinn með þögn sinni sem sé hluti af ástæðu þess að Ciham hafi ekki verið látin laus úr haldi.
Sms-aðgerðasinnar krefjast þess að utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, taki upp málið og fari fram á að hún verði látin laus tafarlaust.
