Kína: Tíbetskur munkur í fangelsi fyrir skilaboð á netinu

Rinchen Tsultrim, 29 ára tíbetskur munkur, var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í mars 2020 án réttlátrar málsmeðferðar. Fjölskylda hans fékk ekki upplýsingar um dóminn fyrr en ári síðar þegar yfirvöld tilkynntu loks að hann væri í haldi í ónefndu fangelsi í Chengdu í Sichuan-héraði.

Fjölskylda Rinchem Tsultrim telur að hann sé í fangelsi fyrir að tjá pólitískar skoðanir sínar á WeChat-spjallforriti og eigin vefsíðu. Þar sem hann fær hvorki að hitta fjölskyldu sína eða lögfræðing þá er ekki vitað um líðan hans og líkamsástand.

Rinchen Tsultrim byrjaði að tjá skoðanir sínar árið 2008 á WeChat og eigin vefsíðu í kjölför óróa í Tíbet. Árið 2018 fékk hann viðvörun frá öryggisdeild á vegum ríkisins um að láta af gagnrýni á kínversk stjórnvöld á netinu. Hann var í kjölfarið undir eftirliti og lokað var fyrir vefsíðu hans.

Bakgrunnur

Kínversk stjórnvöld hafa beitt hörku gegn trúarlegum minnihlutahópum í landinu, þá sérstaklega í Xianjiang og Tíbet. Erfitt er að komast til og frá svæðum þar sem Tíbetar búa þar sem aðgangur er takmarkaður, sérstaklega fyrir fjölmiðlafólk, fræðifólk og mannréttindasamtök sem gerir það að verkum að erfitt er að rannsaka stöðu mannréttinda á svæðinu.

Sms-félagar krefjast lausnar Rinchen Tsultrim og að hann fái að hitta fjölskyldu sína og lögfræðing á meðan hann er í haldi.