COP 26: Íslensk stjórnvöld verða að grípa til aðgerða

Loftslagsváin er aðför að mannréttindum. Brýnt er að ríki á COP26  ráðstefnunni grípi strax til aðgerða til verndar mannréttindum.

Nú þegar má sjá hræðilegar afleiðingar loftlagsváar á mörgum stöðum í heiminum. Madaga­skar er á barmi þess að upplifa fyrstu hung­urs­neyð heimsins af völdum lofts­lags­breyt­inga, hitastig í Jacobabad í Pakistan fer reglulega yfir 50° c sem er talið ólíft fyrir manneskjur, öfgar í veðurfari verða tíðari og vara lengur. 

Kröfur Amnesty til íslenskra stjórnvalda eru þessar:

  • Að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að hitastig jarðar hækki umfram 1,5 gráðu! Ríkisstjórnin verður að leggja fram nýja eða betrumbætta aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, svokölluð landsákvörðuð framlög (e. NationallyDetermined Contributions – NDC’s) í þeim tilgangi að draga úr meðalhækkun hitastigs jarðar með tilliti til getu ríkisins og ábyrgð á loftslagsvánni.
  • Að auka fjárframlög í loftslagsmálum og þannig leggja sitt af mörkum um þau áform að það safnist að minnsta kosti 100 milljarðar dollara (USD) á ári í sameiginlegan sjóð í formi styrkja frekar en lána. Mannréttindi og réttlæti eru í húfi fyrir viðkvæmustu samfélög í heiminum sem hafa lítið sem ekkert gert til að valda loftslagsbreytingum en eru fyrst til að finna fyrir harkalegum afleiðingum þeirra. 
  • Að fallast á nýja tilhögun, sem fjármögnuð er með aukafjárveitingu, til að greiða sanngjarnar skaðabætur og styðja við og bæta fólki mannréttindabrotin sem það hefur sætt vegna loftslagsváarinnar. 
  • Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í stað þess að treysta á mótvægisaðgerðir sem einungis fresta loftslagsaðgerðum og kunna að hafa neikvæð áhrif á mannréttindi. Ríki heims verða að hafna öllu fjölþjóðlegu fyrirkomulagi í kolefnisviðskiptum sem ekki leiða til raunverulegs samdráttar í kolefnislosun og taka ekki tillit til verndunar mannréttinda.
  • Að innleiða nýja aðgerðaáætlun (e. Action for Climate Empowerment (ACE) Work Programme) um fræðslu, þátttöku og aðgang almennings að upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga, sem styður við skilvirka innleiðingu á mannréttindamiðaðri stefnu í loftslagsmálum.