Stafrænt eftirlit í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn

Yfir 100 félagasamtök hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem skorað er á ríkisstjórnir heims að bregðast ekki við kórónuveirufaraldrinum með auknu stafrænu eftirliti nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Í ljósi þess að ríkisstjórnir um heim allan nota nú í auknum mæli stafræn eftirlitskerfi í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn, skorar Amnesty International á yfirvöld að nota slík eftirlitskerfi aðeins ef þau uppfylla ströng skilyrði sem tryggir vernd mannréttinda og kemur í veg fyrir óhóflegt eftirlit með borgurum.

Tæknin getur gegnt mikilvægu hlutverki í baráttu ríkja gegn kórónuveirufaraldrinum en faraldurinn gefur yfirvöldum ekki fríspil til að víkka út heimildir fyrir starfrænu eftirliti, án skilyrða.

„Við höfum séð að stjórnvöld geta verið treg að afsala sér tímabundnu eftirlitsvaldi og við megum ekki fljóta sofandi að feigðarósi þar sem varanlegu eftirlitskerfi með borgurum er komið á,“ sagði Rasha Abdul Rahim, aðstoðarframkvæmdastjóri tækniteymis Amnesty International.

Hér má sjá sameiginlega yfirlýsingu félagasamtaka

Aukið stafrænt eftirlit sem viðbrögð við lýðheilsuógn má aðeins nota að uppfylltum ströngum skilyrðum. Ríki geta ekki litið framhjá réttindum eins og friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsinu, í nafni baráttunnar við lýðheilsuógn og verða því að tryggja að allar nýjar ráðstafanir séu með öflugum varnöglum til að tryggja vernd mannréttinda.

Nú meira en nokkru sinni fyrr verða stjórnvöld að gæta þess til hins ýtrasta að allar takmarkanir á þessum réttindum séu í samræmi við viðurkennda og rótgróna vernd mannréttinda.