Filippseyjar: Forsetinn fyrirskipar að skjóta til að drepa

Forseti Filippseyja Duterte hefur fyrirskipað lögreglu, hermönnum og opinberum fulltrúum í héruðum landsins að skjóta „vandræðagemlinga“ sem mótmæla á meðan á sóttkví stendur nú þegar kórónufaraldurinn geisar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Filippseyjum hafa 17 þúsund einstaklingar verið handteknir fyrir brot gegn útgöngubanni. Það hefur þveröfug áhrif til verndar heilsu almennings þar sem aukin smithætta er í fangavist.

Frekari fregnir berast af handtökum á fólki sem brýtur gegn samfélagslegri sóttkví en tuttugu og einn íbúi í borginni Quezon var handtekinn eftir að hafa krafist aðstoðar frá sveitastjórninni með tilliti til samfélagslegrar einangrunar.

„Það er mjög ógnvekjandi að Duterte forseti hafi víkkað út stefnu sína að „skjóta til að drepa“ á tímum samfélagslegrar einangrunar en slík stefna er orðin að átakanlegu aðalsmerki forsetatíðar Duterte. Óheftri, banvænni valdbeitingu ætti aldrei að beita sem viðbrögð við neyðarástandi eins og kórónuveirufaraldurinn er.“

Butch Olano framkvæmdastjóri Amnesty International á Filippseyjum.

„Þessi hrottalega aðferð sem er notuð til að refsa þeim sem eru ásakaðir um að brjóta sóttkví og þær fjöldahandtökur sem eiga sér stað, allt fram til dagsins í dag, og beinast aðallega gegn fátæku fólki, er enn frekari vitnisburður um kúgunartilburði stjórnvalda gagnvart þeim sem eiga í basli með að mæta grunnþörfum sínum. Til þessa teljast ofbeldisfull aðgerð lögreglunnar gagnvart íbúum í San Roque sem mótmæltu skorti á aðstoð frá sveitafélagi sínu. Ofbeldisfullar aðgerðir lögreglu gagnvart fólki sem kallar eftir aðstoð eru harðbrjósta og óverjandi, sérstaklega í ljósi aðstæðna sem hafa komið í veg fyrir að milljónir Filippseyinga geti unnið fyrir sér,“ segir Butch Olano framkvæmdastjóri Amnesty International á Filippseyjum.

Ákall Amnesty International

Amnesty International skorar á forseta landsins að láta án tafar af hvatningu sinni um ofbeldi gagnvart þeim sem kunna að gagnrýna stjórnvöld á tímum kórónuveirufaraldursins. Sveitastjórnir landsins verða að koma af stað samtali við íbúa og koma neyðaraðstoð til skila, sérstaklega til fátækari samfélaga landsins.

Við skorum einnig á hlutaðeigandi aðila að rannsaka þá einstaklinga innan lögreglunnar sem beittu óhóflegu valdi, leysa hina handteknu í San Roque úr haldi og skoða niður í kjölinn öll atvik í stærra samhengi. Setja verður í forgang líf þeirra sem eru í mestri hættu í þeim tilgangi að draga úr hættunni á COVID-19-smiti.