borgaraleg óhlýðni


Yfirlit

Sögu­lega hefur borg­araleg óhlýðni verið notuð til að vekja athygli á tilteknum málstað og stuðla að samfélags­legum breyt­ingum með beinum hætti, án ofbeldis. Dæmi þar um eru setumótmæli, fjöldafundir og aðgerðir sem ná til fjöl­miðla (e. media stunts). 

Samkvæmt alþjóð­legum mannréttindasamningum nýtur borg­araleg óhlýðni verndarákvæða um tján­ing­ar­frelsi og réttinn til frið­sam­legra samkoma svo framar­lega sem borgaralega óhlýðnin sé viðhöfð með friðsamlegum hætti.

Borg­araleg óhlýðni í tengslum við mótmæli nýtur einnig verndar. Hún felur í sér aðgerðir sem ætlaðar eru til að ná fram samfélagslegum breyt­ingum með því að nota aðferðir sem skapa truflun, oft með þeim hætti að lög eru vísvitandi brotin af samviskuástæðum.

Borg­araleg óhlýðni getur því falið í sér að lög séu brotin til að sýna fram á rang­læti þeirra, svo sem lög sem banna tján­ingu á ákveðnum viðhorfum, lög sem takmarka mannréttindi ákveð­inna hópa í samfé­laginu eða landslög sem eru í andstöðu við alþjóðalög um mannréttindi.

Þú getur gerst aðgerðasinni

Þú getur tekið þátt í skipulagningu viðburða í almenningsrýmum og á samfélagsmiðlum eða gerst Amnesty fræðari.

Hvað er borgaraleg óhlýðni?

Borgaraleg óhlýðni á við þegar landslög eru vísvitandi brotin með friðsamlegum hætti af samviskuástæðum eða vegna þess að það er talið eina leiðin til að vekja athygli, tjá pólitíska eða samfélagslega andstöðu eða til að ná fram breytingum.

Borgarleg óhlýðni getur átt við stóran hóp sem tekur sig saman og skipuleggur borgaralega óhlýðni fyrir sameiginlegan málstað.

Borgaraleg óhlýðni er aðferð sem er beitt um heim allan. Hvað telst vera borgarleg óhlýðni fer þó eftir kringumstæðum og lögum á hverjum stað fyrir sig.

Aðgerðasinnar í Moskvu á meðan heimsmeistaramótið stóð yfir.

Má refsa fyrir borgaralega óhlýðni?

Borg­araleg óhlýðni getur því falið í sér að lög séu brotin til að sýna fram á rang­læti þeirra. Lög sem eru ekki í samræmi við alþjóðalög. Sem dæmi um slíkt er að klæðast á þann hátt sem er bannað samkvæmt landslögum. Refs­ingar fyrir slík brot á lögum eru hvorki nauðsynlegar né hóflegar. Stjórn­völd ættu ekki að lögsækja einstak­linga fyrir slík brot heldur afnema eða breyta viðkom­andi lögum til samræmis við alþjóð­lega mannréttindasamninga. 

Það getur einnig talist til borg­ara­legrar óhlýðni ef fólk brýtur landslög af samviskuástæðum, jafnvel þó lögin séu í samræmi við alþjóðalög. Þetta á til dæmis við þegar mótmælendur fara inn á einkaeign í leyf­is­leysi eða loka fyrir vegi. 

Alþjóð­lega umhverfisverndarhreyf­ingin Extinction Rebellion hefur staðið fyrir mótmælaaðgerðum þar sem þetta er raunin. Í maí 2019 kallaði hreyf­ingin eftir því að stjórnvöld gripu til frekari aðgerða í loftslags­málum með því að mótmæla á umferð­ar­götum og hindra umferð. Mótmælin við Gálgahraun árið 2013 eru einnig dæmi um þetta. Mótmæl­endur tóku sér stöðu framan við vinnu­vélar og neituðu að hlýða tilmælum lögreglu um að færa sig. 

Enda þótt Amnesty International felli ekki dóm um réttmæti refs­inga í umræddum málum hafa samtökin greint tilhneig­ingu hjá ríkjum heims að bera alvar­legri sakir á fólk, sem brýtur lög af samviskuástæðum með borgara­legri óhlýðni, en tilefni er til eða þykir réttlætan­legt.

Dæmi eru um að fólk sé þá ákært og dæmt fyrir hryðjuverk, landráð eða uppreisn. Mikil­vægt er að skoða í hverju tilviki fyrir sig hvort refs­ingar vegna lögbrota af samviskuástæðum séu nauðsyn­legar og gæti hófs. Of harðar ákærur hafa hrollvekjandi áhrif á réttinn til tjáningarfrelsis og réttinn til að koma saman friðsamlega.    

Rétturinn til að mótmæla

Söguleg borgaraleg óhlýðni

Þann 6. apríl 1930 stóð Mahatma Gandhi með lófann fullan af salti í Dandi á Indlandi og sagði: ,,Með þessu hristi ég stoðir breska heimsveld­isins.“ Gandhi hafði gengið tæpa 400 kíló­metra ásamt tugum þúsunda Indverja til að vinna sitt eigið salt. Það gerði hann til að mótmæla breskum lögum sem bönnuðu Indverjum að vinna og selja salt. Bretar lögðu þess í stað háa skatta á saltsölu sem bitnaði mest á hinum fátæku.  

Þann 1. desember 1955 sat Rosa Parks, svört kona, í hálf­fullum stræt­isvagni í Alabama-ríki í Bandaríkjunum þegar inn kom hvítur farþegi. Bílstjóri strætisvagnsins skipaði henni að standa upp fyrir farþeg­anum og færa sig aftast, eins og lög gerðu ráð fyrir. Hún neitaði. Andóf Rosu Parks varð innblástur að réttindabar­áttu svartra í Bandaríkj­unum.  

Þann 3. apríl árið 1963 leiddi Martin Luther King Jr. fjölda svartra í miðbæ Birmingham í Bandaríkjunum til að mótmæla aðskilnaðarstefnu borgarinnar. Allir mótmælendurnir voru hand­teknir. King var gagn­rýndur fyrir að valda uppþoti og fangels­aður. King barðist fyrir því að svartir nytu sömu réttinda og hvítir í Bandaríkjunum og vakti barátta hans heims­athygli. Ári eftir mótmælin í Birmingham hlaut hann frið­ar­verð­laun Nóbels.

Þegar King sat í fangelsinu eftir mótmælin fyrr­nefndu skrifaði hann hið fræga „Bréf úr fangelsinu í Birmingham“ sem var andsvar við yfirlýs­ingu nokk­urra hvítra presta um að þeir viður­kenndu að félags­legt rang­læti viðgengist, en að baráttan gegn aðskilnaði svarta og hvítra ætti ekki að fara fram á götum úti heldur í réttarsölum. Í bréfi sínu andmælti King yfir­lýsingu prest­anna og skrifaði að án friðsamlegra en beinna og öflugra aðgerða yrði félags­legu rétt­læti aldrei náð. Borg­araleg óhlýðni væri ekki einungis réttlætanleg andspænis rang­látum lögum heldur bæri fólk siðferð­is­lega ábyrgð á að brjóta gegn ranglátum lögum.

Þau Mahatma Gandhi, Rosa Parks og Martin Luther King Jr. áttu það sameig­in­legt að vera óhrædd við að fylgja sann­fær­ingu sinni og berjast fyrir félags­legu rétt­læti. Þau þorðu að benda á samfélagsleg mein og tóku málin í sínar hendur, brutu óréttlát lög ef til þurfti og stóðu fyrir mótmælum. Þau stuðluðu að framgangi mannréttinda í krafti sannfæringar sinnar og hugrekkis, oftar en ekki með borgara­lega óhlýðni að vopni. 

Dæmin um Mahatma Gandhi, Rosu Parks, og Martin Luther King Jr. sýna fram á nauðsyn og mikil­vægi borgaralegrar óhlýðni til að ná fram félagslegu réttlæti og stuðla framgangi mannréttinda.


FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM