Einangrunarvist fanga


Staðan á Íslandi

Ísland beitir einangr­un­ar­vist í gæslu­varð­haldi óhóflega og brýtur þannig meðal annars gegn samningi Sameinuðu þjóð­anna gegn pynd­ingum og annarri grimmi­legri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refs­ingu með alvar­legum afleið­ingum fyrir sakborninga og rétt þeirra til sanngjarnra réttarhalda.

  • Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi á Íslandi hefur verið beitt gegn börnum og einstaklingum með fötlun og geðraskanir.
  • Dæmi eru um að grunaðir einstaklingar hafi sætt einangrun í gæsluvarðhaldi í tæpa tvo mánuði. Það er skýrt mannréttindabrot.

Þetta eru niður­stöður skýrslu Amnesty International sem gefin var út í janúar 2023: Waking up to nothing: Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland“.

Skýrsla Amnesty International

“Waking up to nothing” Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland

Beiting einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi á Íslandi

Alþjóðalög

Beiting einangrunarvistar skal heyra til algjörra undantekninga, hún skal vara í sem skemmstan tíma og ávallt vera háð ströngum skilyrðum samkvæmt alþjóðalögum. Engin þessara atriða eru virt á Íslandi þar sem kröfur lögreglu um einangrunarvist í gæsluvarðhaldi eru nánast ávallt samþykktar af dómurum.

Alþjóðleg mannréttindalög kveða á um stranga varnagla til að tryggja að einangrunarvist í gæsluvarðhaldi sé aðeins beitt í undantekningartilfellum. Sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um pyndingar hefur einnig kallað eftir því að einangrunarvist í gæsluvarðhaldi verði bönnuð.

Beiting einangrunarvistar getur talist til pyndinga og annarrar illar meðferðar.

Samkvæmt alþjóðalögum um bann gegn pyndingum og annarri illri meðferð skal fólk í viðkvæmri stöðu ekki sæta einangrunarvist. Á það meðal annars við um börn og fólk með líkamlegar eða andlegar fatlanir og taugaþroskaraskanir.

Langvarandi einangrunarvist sem varir lengur en 15 daga telst til illrar meðferðar og er skýrt brot á alþjóðlegum samningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem Ísland er aðili að.

10 börn

á aldrinum 15-17 ára sættu einangrun í gæslu­varð­haldi á Íslandi á árunum 2012-2021.

99% tilvika

samþykktu dómarar kröfur ákæru­valdsins um einangr­un­ar­vist í gæslu­varð­haldi á Íslandi á árunum 2016-2018.

99 einstaklingar

sættu langvar­andi einangr­un­ar­vist þ.e. lengur en í 15 daga á árunum á Íslandi á árunum 2012-2021.

Skýrsla Amnesty International

Útdráttur á íslensku

“Waking up to nothing” Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland

Réttlæting

Meginréttlæting íslenskra yfirvalda á beitingu einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi er verndun rannsóknarhagsmuna.

Amnesty International lítur svo á að aldrei skuli beita einangrunarvist til þess eins að vernda rannsóknarhagsmuni lögreglu enda stríðir það gegn alþjóðlegri mannréttindalöggjöf um nauðsyn og meðalhóf. Önnur og vægari úrræði eru tiltæk til að gæta rannsóknarhagsmuna, eins og að aðskilja gæsluvarðhaldsfanga frá tilteknum einstaklingum og takmarka símanotkun.

Erfitt er að ákvarða með fullri vissu hvort lögregla og saksóknarar beiti einangrunarvist vísvitandi í þeim tilgangi að beita þrýstingi. Það er hins vegar enginn vafi á því að einangrunarvist skapar ákveðinn þrýsting.

Ef einangrunarvist er beitt í þeim eina tilgangi að ná fram upplýsingum eða játningu telst það til pyndinga og annarrar grimmilegrar meðferðar.

Sex af hverjum tíu gæsluvarðhaldsföngum sættu einangrunarvist hér á landi árið 2021 þar sem þeir voru í einangrunarvist í rúmlega 22 klukkustundir á sólarhring án samskipta við aðra fanga.

© Anna Kristín Shumeeva

„Ég horfði á bíómyndina og taldi klukkutímana, hversu löng myndin var. En það var eitthvað sem ég hef aldrei upplifað áður. Þetta var, þú veist, að vita ekki hvaða tími dags var, nótt eða dagur, sjö til níu daga…Ég gat ekki sofið þó að ég vildi sofa.“

fyrrum fangi í einangrunarvist

Skaðsemi

Fjöldi rann­sókna bendir til þess að einangr­un­ar­vist hafi alvarleg heilsufarsáhrif, bæði líkamleg og andleg. Einkenni fela meðal annars í sér svefn­leysi, rugling, ofsjónir og geðrof. Neikvæð heilsufarsáhrif geta komið í ljós eftir aðeins örfáa daga í einangrun.

Sjálfs­vígs­hætta og sjálfsskaði eykst á fyrstu tveimur vikum einangr­un­ar­vistar. Hætta á heilsutjóni eykst með degi hverjum í einangrun. Eðli málsins samkvæmt aukast líkurnar á skaðlegum áhrifum einangrunarvistar því lengur sem hún varir.  

Alþjóðlega er viðurkennt að ein helstu skaðlegu áhrif einangrunarvistar er skortur á innihaldsríkum samskiptum sem nauðsynleg eru til að viðhalda heilsu og velferð fólks. 

Fangar í einangrunarvist í gæsluvarðhaldi á Íslandi eru 23 tíma á sólarhring í einangrun og fá einn klukkutíma í útiveru. Yfirleitt eru þeir í samskiptum við tvo einstaklinga, þeirra á meðal er starfsmaður á vakt. Fangar geta beðið um að hitta lækni, prest eða lögfræðinginn sinn.

© Anna Kristín Shumeeva

Skortur á varnöglum

Skortur er á varnöglum til verndar börnum og einstaklingum í viðkvæmri stöðu sem eru í mikilli hættu á að bera skaða af einangrunarvist, til dæmis einstaklingar með líkamlega fötlun, geðraskanir eða þroskahömlun. Þetta á einnig við um einstaklinga með sumar taugaþroskaraskanir.

Viðtöl rannsakenda Amnesty International við lögfræðinga og gæsluvarðhaldsfanga sýndu fram á fjölda tilfella þar sem einangrunarvist var beitt gegn einstaklingum þrátt fyrir mikla hættu á skaða. Það gengur í berhögg við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

Í samræmi við alþjóðlegt bann gegn pyndingum og annarri illri meðferð ætti aldrei að hafa fólk í viðkvæmri stöðu í einangrunarvist, svo sem fólk með fötlun, geðraskanir eða taugaþroskaraskanir, þar sem einkenni gætu versnað við einangrun sem er því líkleg til að valda skaða.

Tilmæli til íslenskra stjórnvalda

Amnesty International hefur skorað á íslensk stjórnvöld að skuldbinda sig til að koma á mikilvægum lagalegum umbótum tafarlaust.  

Á meðal tilmæla stjórnvalda:

  • Endurskoða hegningarlög með það í huga að koma í veg fyrir að unnt sé að beita einangrunarvist eingöngu á þeim grundvelli að vernda þurfi rannsóknarhagsmuni.
  • Greina og innleiða aðrar takmarkanir sem eru minna íþyngjandi en einangrunarvist.
  • Setja í forgang aðgerðir sem tryggja bann við einangrunarvist:
    • Gegn börnum.
    • Gegn einstaklingum með líkamlega eða andlega fötlun eða taugaþroskaraskanir hverra ástand gæti versnað við einangrun.
    • Sem varir lengur en 15 daga.
  • Innleiða stranga varnagla til að tryggja að beiting einangrunarvistar sé í samræmi við mannréttindastaðla, þar á meðal bann gegn pyndingum, réttinum til sanngjarnrar málsmeðferðar og bann við mismunun.

Þrýstingur á íslensk stjórnvöld

Árið 2022

Rannsókn Íslandsdeildar Amnesty International

Deildin ýtti úr vör ítarlegri rannsókn á beitingu einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi sem leidd var af Louise Finer en hún stýrði um árabil skrifstofu um eftirlit með frelsissviptum í Bretlandi. Hún heimsótti Ísland í apríl og tók viðtöl, ásamt tveimur starfsmönnum deildarinnar, við fjölmarga hagaðila, þar á meðal dómara, lögmenn, fyrrverandi og núverandi fanga, starfsfólk innan dómsmálaráðuneytisins, Fangelsismálastofnunar, ákærusviðs lögreglunnar, dómsstólasýslunnar, ríkissaksóknara og fleiri.

Nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum

Í kjölfar umsagnar Íslandsdeildar Amnesty International til nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (e. CAT) í apríl gaf nefndin út álit og tilmæli til íslenskra stjórnvalda í maí sama ár er varðar beitingu einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi.

Nefndin gerði meðal annars alvar­legar athuga­semdir við íslenskan lagaramma. Lýst var yfir áhyggjum af tilfellum þar sem einangrun einstak­linga í gæsluvarðhaldi varði lengst í 33 daga árið 2020 og 37 daga árið 2021 og að minnsta kosti 54% gæsluvarðhaldsfanga hafi sætt einangrun á árunum 2012-2021.

Að auki var bent á að dómarar samþykktu í 98,77% tilvika kröfu ákæruvaldsins um einangrun í gæsluvarðhaldi á árunum 2016-2018. Nefndin taldi það einnig áhyggju­efni að í einstaka tilfellum hafi börn sætt einangrun í gæsluvarðhaldi og mögu­lega einstaklingar með geðfötlun.

Árið 2023

Útgáfa skýrslu

Íslandsdeildin þrýsti á yfirvöld um að uppfylla tilmæli Amnesty International sem komu fram í skýrslu samtakanna sem gefin var út í janúar. Lagaráðgjafi alþjóðaskrifstofu Amnesty International, Simon Crowther, kom til landsins við útgáfu hennar og veitti viðtöl í fjölmiðlum ásamt því að sitja fundi með yfirvöldum. Mikil fjölmiðlaumfjöllun átti sér stað á Íslandi um niðurstöður skýrslunnar.

Málþing

Í apríl stóð Íslandsdeildin fyrir lokuðu málþingi í Þjóðminjasafninu þar sem mættu alls 50 hagaðilar. Fimm einstaklingar frá mismunandi stofnunum og embættum hérlendis héldu erindi ásamt þremur erlendum sérfræðingum sem komu til landsins í boði deildarinnar. Á málþinginu lýstu íslensk yfirvöld yfir skýrum vilja til að koma á nauðsynlegum breytingum á lögum og framkvæmd sem tryggja betur réttindi frelsissvipts fólks í einangrun í gæsluvarðhaldi.

Fangelsið á Hólmsheiði

Íslandsdeild Amnesty International fékk upplýsingar frá Fangelsismálastofnun í desember 2023 um bættan aðbúnað gæsluvarðhaldsfanga í einangrun á Hólmsheiði er varðar útisvæðið og aðgang þeirra að bókasafni og líkamsrækt eins og kostur er. Í sama svari Fangelsismálastofnunar var einnig nefnt að gæsluvarðhaldsfangar í einangrun fái nú aðgang að hjúkrunarfræðingi daglega.

Árið 2024

Stefnumótun stjórnvalda

Dómsmálaráðuneytið kynnti í júní áform um heildstæða stefnumótun í fullnustumálum sem leiða á til útgáfu grænbókar, stöðumats- og valkostagreiningar er varðar fullnustu refsinga. Í júlí sendi Íslandsdeildin inn umsögn varðandi þessi áform með tilmælum til stjórnvalda um einangrunarvist í gæsluvarðhaldi. Stuttu síðar fundaði Íslandsdeildin með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins og öðrum hagaðilum um stöðuna í málaflokknum á Íslandi og helstu áskoranir.

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna

Íslandsdeild Amnesty Internati­onal sendi inn umsögn til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir úttekt nefndarinnar í október um stöðu mannréttinda á Íslandi. Nefndin tók undir þrjú af fjórum áhyggjuefnum sem Amnesty International vakti sérstak­lega athygli á, þar á meðal gagn­rýndi nefndin hátt hlut­fall gæslu­varð­halds­fanga í einangrunarvist og þá sérstaklega erlendra ríkisborgara. Tekið var undir tilmæli Amnesty International um að einangr­un­ar­vist yrði aðeins notuð í undantekn­ingar­tilvikum sem síðasta úrræði, með skýrum rökstuðn­ingi og að hvert tilfelli væri metið á grundvelli hvers einstaklings fyrir sig. 

Árið 2025

Í kjölfar þess að ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostdóttur tók við völdum í desember 2024 var nýr dómsmálaráðherra upplýstur um niðurstöður rannsóknar Amnesty International. Ráðherra var einnig hvattur til að fara eftir þeim tilmælum sem settar voru fram í skýrslu Amnesty International.

Málþing um einangrunarvist í gæsluvarðhaldi á Íslandi árið 2023

FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM