Íslandsdeild Amnesty International hélt blaðamannafund föstudaginn 5. mars í tilefni af nýrri herferð Amnesty International gegn ofbeldi á konum.
Íslandsdeild Amnesty International hélt blaðamannafund föstudaginn 5. mars í tilefni af nýrri herferð Amnesty International gegn ofbeldi á konum. Fulltrúar flestra fjölmiðla sóttu fundinn og gerðu herferðinni skil í fjölmiðlum.
Sunnudaginn 7. mars stóð Íslandsdeildin síðan fyrir uppákomu á torginu í Kringlunni. Fulltrúar landsliða Íslands í knattspyrnu, körfubolta og handbolta karla og kvenna mættu og ljáðu herferðinni lið sitt með því að leggja lófafar sitt á dúk, sem Íslandsdeildin hafði komið fyrir á torginu. Kennimerki herferðarinnar er einmitt lófafar.Að því loknu gafst félögum og öðrum gestum kostur á að leggja lófafar sitt á dúkinn.
Skemmst er frá því að segja að uppákoman tókst mjög vel og fyllti fólk dúk sem er 7 metrar x 1,1 m.
KK lék fyrir gesti ásamt harmonikkuleikaranum Tatu Kantomaa, og fórst þeim það vel úr hendi eins og þeirra er von og vísa.
