Gögn Amnesty International eru opinber og aðgengileg öllum
Í fréttatilkynningu sem Íslandsdeild Amnesty International sendi frá sér 10.maí segir að íslenskum yfirvöldum hafi mátt vera vel kunnugt um ásakanir um pyndingar í Írak meðal annars vegna skýrslu sem Íslandsdeildin sendi utanríkisráðherra og formönnum þingflokka í febrúar á þessu ári.
Í skýrslunni er meðal annars greint frá áskökunum um pyndingar í Írak sem Amnesty International hafði fengið upplýsingar um.
Rétt er að taka fram að Amnesty International hefur allt frá innrásinni inn í Írak fylgst náið með ástandi mannréttinda í landinu og safnað upplýsingum sem birtar hafa verið í fjölmörgum skýrslum og yfirlýsingum samtakanna, þ.á.m. ásakanir um pyndingar í fangelsum og gæsluvarðhaldsstöðvum hernámsliðsins. Upplýsingar Amnesty International um pyndingar byggja fyrst og fremst á viðtölum við fanga sem leystir hafa verið úr haldi og hafa lýst þeirri meðferð sem þeir sættu í varðhaldi og fangelsum. Gögn Amnesty International eru opinber og aðgengileg öllum.
Á grundvelli fjölmargra upplýsinga Amnesty International um ásakanir um pyndingar í Írak hafa deildir samtakanna um allan heim undrast yfirlýsingar stjórnmálamanna þess eðlis að nýjustu ásakanir um pyndingar hafi komið þeim á óvart.
Íslandsdeild Amnesty International harmar að stjórnvöld vestrænna ríkja bregðist ekki við fyrr en myndir af pyndingum eru birtar opinberlega.
