Fréttatilkynning vegna Guantanámo

Fréttatilkynning

 

Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Deiglan.com, Íslandsdeild Amnesty International, Múrinn, Sellan, Skoðun, Tíkin,

Ung frjálslynd, Ung vinstri græn og Ungir jafnaðarmenn.

 

Með bréfi 27. maí sl., skoruðu ellefu félög og netmiðlar á ríkisstjórn Íslands að koma mótmælum á framfæri með formlegum hætti við ríkisstjórn Bandaríkjanna vegna mannréttindabrotanna í herstöð Bandaríkjamanna við Guantanamo flóa á Kúbu. Í kjölfarið var hafin undirskriftasöfnun á netinu.

 

Í bréfi utanríkisráðuneytisins 8. júní sl. kom fram að formlegum mótmælum hafi verið komið á framfæri við fulltrúa bandarískra yfirvalda. Athygli skal vakin á að stjórnvöld gerðu mótmæli sín opinber í fréttatilkynningu 11. júní sl. sem greindi frá svari utanríkisráðuneytisins til aðstandenda áskorunarinnar.

 

Aðstandendur áskorunarinnar telja mikilvægt að ríkisstjórn Íslands láti sig varða mannréttindi fanganna í Guantanamo herstöðinni sem margir hafa setið þar í haldi án dóms og laga í vel á þriðja ár og sætt ómannúðlegri meðferð og hugsanlega pyntingum. Jafnframt er því fagnað að mótmælum íslenskra yfirvalda vegna brota á mannréttindum Guantanamo fanganna hafi verið komið formlega á framfæri við fulltrúa Bandaríkjanna.

 

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur nú í vel á þriðja ár haldið mörg hundruð einstaklingum föngnum án dóms og laga. Það er því ljóst að það er nauðsynlegt að almenningur og ríki heims tali skýrt þegar mótmælt er þessum alvarlegu mannréttindabrotum Bandaríkjamanna.

 

Íslensk yfirvöld eru hvött til að beita áhrifum sínum á alþjóðavettvangi á eins afgerandi hátt og kostur er og hvetja önnur ríki til að mótmæla brotum á mannréttindum fanganna í Guantanamo.

 

 

Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Deiglan.com, Íslandsdeild Amnesty International, Múrinn, Sellan, Skoðun, Tíkin, Ung frjálslynd, Ung vinstri græn og Ungir jafnaðarmenn.