Amnesty International, Kvennaathvarfið og
Mannréttindaskrifstofa Íslands
boða til málþings í Norræna húsinu
Fimmtudaginn 14. október kl. 17.00
Glæpur og refsileysi
Ofbeldi í skjóli heimilisins
Íslandsdeild Amnesty International, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Kvennaathvarfið efna til málþings í Norræna húsinu fimmtudaginn14. október. Málþingið hefst kl. 17 og stendur í rúma tvo klukkutíma. Á málþinginu verður skoðað hvernig málum er varða heimilisofbeldi er háttað hér á landi. Velt verður upp spurningunni hvort litið er á heimilisofbeldi sömu augum og annað ofbeldi og kannað hvort réttarkerfið hafi sömu úrræði gegn heimilisofbeldi og öðru ofbeldi. Einnig verður fjallað um reynslu og aðkomu lögreglunnar að slíkum brotum.
Frummælendur eru Brynhildur Flóvenz lögfræðingur og Gunnleifur Kjartansson, lögreglufulltrúi. Auk þeirra munu Drífa Snædal, fræðslu- og framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins fjalla um ofbeldið af sjónarhóli þess, og Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International greina frá alþjóðlegu átaki AI gegn ofbeldi á konum.
Guðrún D. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, stýrir umræðum.
Ofbeldi á heimilum er útbreitt, víðtækt og falið vandamál. Ofbeldi gegn konum hefur verið lýst sem mesta mannréttindahneyksli okkar tíma og ljóst er að fáir ofbeldismenn svara til saka vegna slíkra brota. Tilgangur málþingsins er að kanna hvernig þessum málum er háttað hér á landi og hvaða leiðir eru færar til að koma í veg fyrir refsileysi slíkra brota.
Málþingið er opið öllum og aðgangur ókeypis.
