Í tengslum við yfirstandandi herferð Amnesty International gegn ofbeldi í garð kvenna mun Íslandsdeildin taka þátt í táknrænni athöfn, sem fram fer á morgun, fimmtudaginn 28. október. Athöfnin verður haldin á Arnarhóli og hefst kl. 17.
Við hvetjum alla félaga til að mæta og sýna í verki vilja til að enda ofbeldi gegn konum.
Sjá nánar meðfylgjandi fréttatilkynningu.
‘- Misréttið jarðað –
Undirrituð samtök og aðilar boða til táknrænnar athafnar á Arnarhóli, fimmtudaginn 28. október klukkan fimm. Þar verður gerð tilraun til að jarða það misrétti sem konur hafa í gegnum tíðina orðið fyrir af hálfu réttarkerfisins hérlendis svo horfa megi til betri tíma og réttlætis til handa konum. Tilefnið er nýfallinn dómur Héraðsdóms Reykjaness þar sem refsingu var frestað þar sem konan átti að hafa kallað ofbeldi yfir sig. Þessi dómur er því miður ekki eina dæmi um skilningsleysi og misrétti réttarkerfisins gagnvart konum.
Skorað er á íslensk stjórnvöld að fara að tilmælum eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna með efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum að koma á sérstakri lagasetningu og herða aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum hér á landi.
Við hvetjum fólk til að mæta og sýna hug sinn til réttlætisins.
Femínistafélag Íslands
Kvenfélagasamband Íslands
Samtök um kvennaathvarf
Stígamót
Tímaritið Vera
Kvennakirkjan
Kvenréttindafélag Íslands
Kvennaráðgjöfin
Neyðarmóttaka vegna nauðgunar
Unifem á Íslandi
Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi
Vefritið Tíkin.is
V-dagssamtökin
Bríet ? félag ungra femínista
Amnesty International á Íslandi
