Amnesty International fylgist grannt með hjálparstarfi á þeim svæðum, sem fóru illa út úr flóðbylgjunni í kjölfar jarðskjálftans á Indlandshafi síðla desember, til að tryggja að grundvallarmannréttindi séu virt.
Amnesty International fylgist grannt með hjálparstarfi á þeim svæðum, sem fóru illa út úr flóðbylgjunni í kjölfar jarðskjálftans á Indlandshafi síðla desember, til að tryggja að grundvallarmannréttindi séu virt. Sérstaklega er þess gætt hvort að neyðaraðstoð sé misskipt, mannréttindi séu brotin á þeim sem þurft hafa að flýja heimili sín, hvort fórnarlömb hamfaranna sæti líkamlegu eða andlegu ofbeldi, og hvort konur séu beittar ofbeldi.
Amnesty International fer fram á það við alla sem koma að neyðaraðstoðinni, að þeir virði alþjóðlega viðurkennd mannréttindi og mannúðarlög. Aðstoð á að veita á jafnréttisgrundvelli, óháð kynþætti, kynferði, litarhætti, tungumáli, trúarbrögðum, stjórnmálaafstöðu eða þjóðfélagsstöðu, eignum, eða stöðu einstaklinga.
Amnesty International horfir til fregna af mismunun, með sérstakri áherslu á hópa, er sérstaklega þurfa á aðstoð að halda, eins og frumbyggja eða þjóðfélagshópa, sem eiga undir högg að sækja, börn, farandverkafólk, og konur á jaðri samfélagsins. Samtökin telja að neyðaraðstoð eigi ekki að nota sem skálkaskjól til að flytja hópa fólks með valdi, í því skyni að bæla niður eða draga úr stuðningi við andstöðuhópa. Allir flutningar á fólki, sem þurft hefur að flýja heimili sín og hefst við í flóttamannabúðum eða annars staðar, eiga að vera með vitund og vilja þess, og ekki má þvinga það á nokkurn hátt, til að mynda með því að hætta aðstoð.
Mannréttindi eiga helst undir högg að sækja þegar neyðarástand ríkir. Því er brýnt að ríkisstjórnir og aðrir, sem hlut eiga að máli, geri sér grein fyrir og virði það mikilvæga hlutverk, sem mannréttindafrömuðir gegna, til að mynda þeir sem sjá um að úthluta neyðaraðstoð og fylgjast með að lög og réttur séu virt í hjálpar- og uppbyggingarstarfi.
Þau svæði sem Amnesty International fylgist sérstaklega með eru:
Aceh
Aceh-hérað í Indónesíu hafði mátt þola hörmungar áður en flóðbylgjan skall þar á land. Vopnaður andstöðuhópur, sem kallar sig Hreyfing til frelsunar Aceh (Gerakan Aceh Merdeka, GAM) hafði átt í vopnuðum átökum við indónesíska stjórnarherinn. Að minnsta kosti 3000 manns hafa látist í átökum í héraðinu frá því að neyðarlög voru sett þar í maí 2003. Mannréttinda- og mannúðarsamtök hafa haft mjög takmarkað aðgengi að héraðinu frá þeim tíma. Mikilvægt er að hvorugur aðilanna að þessum átökum noti tækifærið til að fremja fleiri mannréttindabrot.
Amnesty International fylgist náið með viðbrögðum indónesískra stjórnvalda við neyðarástandinu sem nú ríkir, þar á meðal því hlutverki sem að indónesíski herinn gegnir við þá aðstoð. Grannt er fylgst með því hvort að ásakanir um mannréttindabrot komi upp í tengslum við þau átök sem átt hafa sér stað í Aceh-héraði.
Sri Lanka
Amnesty International hefur sérstakar áhyggjur af auknum fjölda frétta af kynferðisofbeldi gegn konum í flóttamannabúðum. Í yfirstandandi herferð Amnesty International gegn ofbeldi í garð kvenna er sérstaklega greint frá þeim sérstöku hættum, sem að konur á flótta glíma við, og nauðsyn þess að gripið verði til sérstakra ráðstafana til að hindra kynferðislegt ofbeldi gegn þeim konum og rannsaka ásakanir um kynferðislegt ofbeldi umsvifalaust, nákvæmlega og með sjálfstæðum hætti.
Amnesty International hefur einnig áhyggjur af fregnum frá Sri Lanka þess efni að munaðarlaus börn séu gerð hermenn hjá Frelsishreyfingu tamílsku tígranna, í norður- og austurhluta landsins og fylgist náið með slíku. Barnahermennska hefur lengi verið áhyggjuefni hjá tamílsku tígrunum. Amnesty International mun halda áfram ákalli sínu um að bundinn verði endir á slíkt þegar í stað, og hvetur til þess að þeim börnum, sem nú eru hermenn, verði leyft að snúa aftur til fjölskyldna sinna eða samfélags.
Upphaflega voru þess merki að Frelsishreyfingin og stjórnvöld á Sri Lanka myndu eiga eitthvert samstarf vegna hamfaranna; hins vegar virðist gæta vaxandi ágreinings milli þessara aðila um dreifingu neyðaraðstoðarinnar. Amnesty International hvetur til þess að þessi ágreiningur verði ekki til að tefja eða hindra dreifingu hjálpargagna, og mun fylgjast grannt með framvindu mála.
Tæland
Amnesty International rannsakar nú fréttir af árásum lögreglu í Tælandi á farandverkafólk frá Myanmar, sem að hefur týnt persónuskilríkjum sínum.
