Stofnandi Amnesty International látinn

Peter Benenson, stofnandi alþjóðlegu mannréttindasamtakanna Amnesty International lést þann 26. febrúar síðastliðinn. Hann var 83 ára.

                                                                 Peter Benenson

 

Peter Benenson, stofnandi alþjóðlegu mannréttindasamtakanna Amnesty International lést þann 26. febrúar síðastliðinn. Hann var 83 ára.

 

Benenson var upphafsmaður og helsti hvatamaður að stofnun Amnesty International árið 1961, fyrst sem eins árs herferð til lausnar sex samviskuföngum. Af þessu spratt alþjóðleg mannréttindahreyfing, sem átti þungamiðju sína í alþjóðlegu samtökunum Amnesty International, sem hafa látið sig varða mál mörg þúsunda einstaklinga, er hafa mátt þola mannréttindabrot, og hvatt milljónir til að beita sér í þágu mannréttinda um heim allan.

 

Irene Khan, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International lét svo um mælt:  “Líf Peter Benenson bar vitni um hugrekki í þágu hugsjónar hans að berjast gegn óréttlæti um allan heim”.

 

“Hann færði ljós inni í myrkvuð fangelsi, hrylling pyndingaklefa og hörmungar dauðabúða um víða veröld. Samviska þessa manns skein skært í grimmri og hræðilegri veröld; hann trúði á mátt venjulegs fólks til að koma til leiðar ótrúlegum breytingum og, með því að stofna Amnesty International, gaf hann hverjum og einum tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum.”

 

“Árið 1961 ólu hugsjónir hans af sér alþjóðastarf í þágu mannréttinda. Árið 2005 er arfur hans orðin alþjóðleg hreyfing fyrir mannréttindum, sem aldrei mun deyja.”

 

Ár ákalls til sakaruppgjafar (e. The one-year Appeal for Amnesty) var ýtt úr vör þann 28. maí 1961, í grein í breska dagblaðinu The Observer undir heitinu “The Forgotten Prisoners”. Það ákall laðaði að þúsundir stuðningsmanna, og kom af stað mannréttindahreyfingu um allan heim.

 

Upphaflega herferðin spratt af þeirri hneykslun sem Benenson fann fyrir, eftir að hafa lesið grein um handtöku og fangelsun á tveimur námsmönnum á kaffihúsi í Lissabon í Portúgal, sem skáluðu fyrir frelsi.

 

Á frumbýlingsárum Amnesty International fjármagnaði Peter Benenson samtökin að verulegu leyti, fór í rannsóknarferðir og kom að öllu starfi samtakanna.

 

Peter Benenson fékkst við fleiri góðgerðarmál á ævi sinni. Hann tók þátt í herferð til að ættleiða munaðarlaus börn úr spænsku borgarastyrjöldinni, hjálpaði gyðingum að flýja Þýskaland Hitlers og koma til Bretlands, fylgdist með réttarhöldum sem félagi í Félagi verkalýðslögfræðinga (Society of Labour Lawyers); hann hjálpaði til að setja á stofn samtökin Réttlæti (Justice) og var upphafsmaður samtaka fólks með garnamein af völdum glútena.

 

Við athöfn sem helguð var 25 ára afmæli Amnesty International, kveikti Benenson á kerti vöfðu í gaddavír - sem er einkennismerki samtakanna - með eftirfarandi orðum:

 

“Kertið logar ekki fyrir okkur, heldur fyrir alla þá sem okkur tókst ekki að bjarga úr fangelsi, sem voru skotnir á leið í fangelsi, sem voru pyndaðir, rænt, sem “hurfu”. Fyrir þá logar kertið.”

 

Nú eru rúm 44 ár síðan samtökin Amnesty International voru stofnuð. Þau hafa vaxið og eru nú stærstu sjálfstæðu mannréttindasamtök, með meira ein 1.8 milljón félagar og stuðningsaðila um heim allan.