Þann 19. ágúst 2003 var Sergio Vieira de Mello, Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, drepinn í sprengjuárás á byggingu Sameinuðu þjóðanna í Bagdad, nánast 10 árum eftir að það embætti var stofnað til þess að viðhalda og efla mannréttindi.
Á meðan að einn helsti málsvari alþjóðlegra mannréttinda lá dauðvona í rústunum, fékk umheimurinn tilefni til þess að íhuga hvernig það mátti gerast, að lögmæti og trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna hafi verið að slíku hruni kominn sem raun bar vitni. Eftir að sneitt hafði verið framhjá Sameinuðu þjóðunum í Íraksstríðinu og áhrifamáttur þeirra skertur í kjölfarið, síðan beðið álitshnekki, þar sem þær virtust ófærar um að standa af sér þrýsting frá öflugum þjóðum, voru Sameinuðu þjóðirnar nánast lamaðar í tilraunum sínum til að draga til saka þjóðir sem brutu gegn alþjóða- og mannréttindalögum.
Maður spyr sig einnig hvort atburðarásin sem átti sér stað árið 2003 hafi einnig veitt hugsjóninni um alþjóðlegt réttlæti og alþjóðleg mannréttindi banahöggið, en sú sýn var frumhvati þess að stofnuð voru alþjóðleg samtök á borð við Sameinuðu þjóðirnar. Ef stjórnvöld nota mannréttindabaráttu sem skrúða sem hægt er að klæða sig í eða kasta af sér eftir pólitískum þörfum, hvernig er þá hægt að treysta alþjóðasamfélagi stjórnvalda til að vinna að slíkri hugsjón? Og hvað getur alþjóðasamfélag einstaklinga/borgara gert til þess að bjarga mannréttindum úr rústunum?
Svarið kom í sömu viku og skrifstofa Sameinuðu þjóðanna var spengd í loft upp, þegar hópur kvenna í Mexíkó unnu sinn fyrsta sigur í baráttu fyrir réttlæti myrtra dætra þeirra. Fátækar og getulitlar, börðust þær í 10 ár til þess að ná árangri en loks þvinguðu þær Vicente Fox forseta og yfirvöld til að fylgja málinu eftir.
Ég var hjá mæðrum Ciudad Juárez þegar fréttirnar af þessum tímamótum bárust. Ég mun aldrei gleyma gleðinni á andlitum kvennanna og þakklæti þeirra til þeirra þúsunda manna og kvenna um allan heim sem með framlagi sínu leiddi til breytinga.
Veraldarvefur sem einkenndist af alþjóða samstöðu náði að alþjóðavæða baráttu þeirra. Þegar ég horfði á þær var mér ljóst hversu miklu er hægt að áorka í baráttu fyrir mannréttindum með virkum vef óbreyttra borgara alþjóðasamfélagsins.
Þær áskoranir sem blasa við alþjóðahreyfingum mannréttinda þessa dagana eru brýnar. Sem aðgerðasinnar verðum við að mæta þeim ógnum sem stafa af kaldlyndum, miskunnarlausum og glæpsamlegum aðgerðum vopnaðra hópa og einstaklinga. Við verðum að sporna gegn þeim mannréttindabrotum sem eru afleiðingar hinnar einbeittu, kreddufullu, alþjóðaöryggisstefnu sem hefur nú klofið heiminn. Við verðum að hefja baráttu fyrir því að ráða bót á mistökum stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins til að sýna í verki félagslegt og efnahagslegt réttlæti.
Harmleikurinn sem átti sér stað í Bagdad var skýr áminning (þó samt engan veginn sú eina) um þá heimsógn sem starfar af þeim sem tilbúnir eru til að gera hvað sem er til að ná fram sínum pólitísku markmiðum. Við fordæmum aðgerðir þeirra alfarið. Þeir eru sekir um að brjóta gegn mannréttindum og alþjóðareglum, jafnvel stundum um glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Nauðsynlegt er að koma þeim fyrir dómstóla, en - og hér skiljum við okkur frá sumum stjórnvöldum ? í samræmi við alþjóðalög. Mannréttindi eru fyrir hina bestu og hina verstu, fyrir hina seku jafnt sem hina saklausu. Að neita mönnum um sanngjörn réttarhöld er mannréttindabrot auk þess sem að það eykur líkurnar á því að afbrotamenn verði gerðir að píslarvottum. Þess vegna krefjumst við þess að Saddam Hussein verði dæmdur samkvæmt alþjóðareglum. Þess vegna erum við andvíg starfsemi Bandaríkjahers gagnvart föngum í Guantánamo flóa í Kúbu, sem uppfyllir ekki skilyrði sem kveðið er á um í alþjóðalögum.
Það er engin leið til að ná fram varanlegu alþjóðlegu öryggi án virðingar fyrir mannréttindum. Sú öryggisstefna sem nú tíðkast á alþjóðavettvangi, að hætti Bandaríkjastjórnar, hefur beðið hugsjónalegt skipbrot og hefur tapað gildi sínu. Að fórna mannréttindum í nafni öryggis heima fyrir, að horfa framhjá mannréttindabrotum erlendis, auk þess að grípa til hernaðaraðgerða hvar og hvenær sem þeim sýnist hefur hvorki aukið öryggi né tryggt frelsi.
Sjáðu vaxandi fjölda uppreisna í Írak og aukið stjórnleysi í Afganistan, hina óendanlega hringrás ofbeldis í Miðausturlöndum, og sjálfsvígssprengingar í mannmörgum borgum víða um heim. Hugsaðu um viðstöðulausa kúgun á Úgúrum í Kína og á íslamista í Egyptalandi. Ímyndaðu þér stærð og umfang þeirra stórfelldu refsilausu mannréttindabrota sem framin eru í hinum ?gleymdu? styrjöldum í Tétsníu, Kólumbíu, Nepal og Kongó ? öllum gleymdum nema þeim sem daglega þjást af afleiðingum átakanna.
Tvöfeldni í tali kemur óorði á mannréttindi en er því miður orðið algengt fyrirbæri. Bandaríkin og bandamenn þeirra segjast heyja stríð í Írak til þess að vernda mannréttindi ? en á sama tíma valta þau opinberlega yfir mannréttindi til þess að vinna ?stríðið gegn hryðjuverkum?. Upphaflega var innrásin í Írak gerð til þess að minnka hættuna sem stafar af gjöreyðingavopnum, á sama tíma er heimurinn á floti í smærri vopnum sem drepa meira en hálfa milljón manna á ári. Til þess að gera illt verra hafa sumar ríkistjórnir, í nafni hins svokallaða ?stríðs gegn hryðjuverkum?, slakað á útflutningshömlum til landa sem hafa hræðilegan feril í sögu mannréttindabrota svo sem Kólumbíu, Indónesíu, Ísrael og Pakistan. Eftirlitslaus vopnaviðskipti setja okkur öll í meiri hættu bæði á tímum styrjalda sem og á friðartímum.
Írak og ?stríðið gegn hryðjuverkum? hefur náð að dylja stærstu mannréttinda áskorun okkar tíma. Samkvæmt heimildum þá eyða þróunarlöndin uþb 22 milljörðum bandaríkjadala á ári í vopnakaup. Fyrir 10 milljarða á ári gætu þau fjármagnað fullkomið menntakerfi að menntaskólastigi. Tölfræðin segir sína sögu: Svikin loforð um að takast á við ofurfátækt og stórfellt efnahagslegt og félagslegt óréttlæti.
Samkvæmt mati sérfræðinga, þá er hætta á því að takmark Sameinuðu þjóðanna ? svo sem að draga verulega úr ungbarnadauða, að koma öllum börnum í barnaskóla, að minnka um minnst helming þess fjölda fólks sem ekki hefur aðgang að hreinu vatni ? muni ekki ná fram að ganga, því athygli og fjármagn heimsins hefur færst yfir til ?stríðsins gegn hryðjuverkum?.
Hinir fátæku og þeir sem eiga í erfiðleikum eru þeir hópar sem helst er neitað um réttlæti. Slíkir hópar myndu hagnast mest á sanngjarnri beitingu laga og mannréttinda. Þrátt fyrir aukna umræðu um ódeilanleika mannréttinda er raunin sú að efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi eru vanrækt, og eru þau einungis til sem fræðilegt hugtak fyrir mikinn meirihluta jarðarbúa. Það er engin tilviljun að í Írakstríðinu þá hafa verndunaraðgerðir á olíustöðvum virst hafa hærri forgang en verndun sjúkrahúsa.
Það kemur heldur ekki á óvart að stórfyrirtæki geta gert hvað sem þau vilja og komast upp með það, eða þá að gera ekki það sem þau ættu að gera og telja sig oft hafa engum lögmætum skyldum að gegna varðandi mannréttindi. Reglugerðir Sameinuðu þjóðanna um mannréttindaskyldur fyrirtækja sem samþykktar voru árið 2003 eru mikilvægt skref í áttina að því að gera fyrirtæki ábyrg, en því miður hafa þessar reglur mátt sæta samstilltri aðför stórfyrirtækja og ríkisstjórna.
Andspænis þessu umhverfi misnotkunar og refsileysis, hræsni og tvískinnungshætti, hvað getum við gert til þess að láta mannréttindi skipta máli?
Við getum sýnt að mannréttindi veita sterka og sannfærandi sýn um betri og sanngjarnari heim, og gert grunn að áætlun til að nálgast þau markmið. Þau veita konum eins og Aminu Lawal í Nígeríu von þar sem hætt var við aftöku hennar vegna þess gríðarlega stuðning sem mál hennar hlaut. Þau veita fólki eins og Valdeniu Paulino tæki í mannréttindabaráttu sinni gegn lögregluofbeldi í favelas (fátækrahverfum) í Sao Paulo í Brasilíu. Þau veita hinum valdalausu rödd: samviskuföngum, þeim sem eru í viðjum ofbeldis og fátæktar.
Á tímum óvissu þarf heimurinn ekki aðeins að berjast gegn ógnum, heldur einnig að berjast fyrir alþjóðlegu réttlæti. Mannréttindi er slagorð til að virkja fólk í baráttunni fyrir sannleika og réttlæti. Þökk sé framlagi þúsunda aðgerðasinna í Suður-Ameríku þá er alda óréttlætis í rénun í þeim heimshluta. Þrátt fyrir krossferð Bandaríkjamanna til að grafa undan alþjóðlegu réttlæti og tryggja sér þannig almenna undanþágu fyrir bandaríska borgara, þá skipaði Alþjóðasakamáladómstóllinn sérstakan saksóknara, og hóf starfsemi sýna af fullu alvöru. Smátt og smátt hafa dómstólar í Bandaríkjunum og Bretlandi stöðvað tilraunir ríkisstjórna þeirra til þess að takmarka mannréttindi í nafni ?stríðs gegn hryðjuverkum?.
Mannréttindi tryggja jafnrétti handa milljónum kvenna víðsvegar um heiminn. Nýlegar lagabreytingar er varða stöðu kvenna í Marokkó munu brjóta blað í jafnréttismálum kynjanna í þeim heimshluta. Félagar í Amnesty International hafa nú tekið höndum saman við kvennahreyfingar og aðra sem vinna að því að stöðva ofbeldi gegn konum. Við skorum á leiðtoga, félög og einstaklinga að skuldbinda sig opinberlega til að afnema lög, kerfi og viðhorf sem leyfa ofbeldi gegn konum að viðgangast.
Mannréttindi snúast um það að breyta heiminum til hins betra. Með hin öflugu skilaboð mannréttinda að leiðarljósi hefur Amnesty International, í samvinnu við Oxfam og IANSA, hafið herferð til alþjóðlegs eftirlits með skotvopnum. Til þeirra sem segja að það mun aldrei ganga, þá bendum við á herferðirnar sem urðu til þess að lagt var á alþjóðlegt bann við jarðsprengjum og stofnunar Alþjóðasakamáladómstólsins. Með því að sameina þrýsting frá almenningi við stuðning frá ríkisstjórnum erum við ákveðin í að ná fram breytingum.
Við fögnum þeim árangri sem náðst hefur en horfum samt í augu við hinar raunverulegu áskoranir sem liggja fyrir. Við lifum í hættulegri og sundraðri veröld þar sem daglega er reynt á raungildi mannréttinda, réttmæt barátta einstaklinga er dregin í efa, og bilið milli gjörða og skyldna hjá ríkisstjórnum, alþjóðafyrirtækjum, og vopnuðum hópum eykst. Það er í nákvæmlega slíkum heimi sem þörf er á stærra samfélagi manna sem segir: ?Þetta verður að stöðva. Þessu verður að breyta?.
Það eru engin alþjóðasamtök öflugri en hópur alþjóðasamfélag almennings. Í gegnum félaga og bandamenn í mannréttindahreyfingunni hefur Amnesty International skuldbundið sig til að viðhalda og blása nýju lífi í þá hugsjón að mannréttindi séu öflugt verkfæri til varanlegra breytinga. Í gegnum raddir og hugsjónir milljóna manna og kvenna, höldum við boðskap mannréttinda á lofti inn í framtíðina.
in
