Dropar af regni

Nýverið hófst í Ráðhúsi Reykjavíkur sýningin

Nýverið hófst í Ráðhúsi Reykjavíkur sýningin “Dropar af regni: Amnesty International á Íslandi í 30 ár”. Sýningin gefur dálítið ágrip af þeim fjölda einstaklinga sem félagar Íslandsdeildar Amnesty International hafa átt þátt í að frelsa síðustu 30 árin. Þessir einstaklingar voru fangelsaðir fyrir þær sakir einar að tjá trú sína eða skoðanir, eða vegna kyns síns og uppruna. Þessa einstaklinga kallar Amnesty International samviskufanga.

Heiti sýningarinnar er tekið úr þakkarbréfi samviskufangans Mohamed El Boukili frá Marokkó, sem lét svo um mælt árið 1994:

“Á dimmustu tímum fangavistar minnar komu orð ykkar og bréf sem dropar af regni, sem lengi hefur verið beðið eftir í endalausri eyðimörk. Frelsi mitt í dag er ávöxtur þols ykkar og þreks, vinnu og hugrekkis.”

Amnesty félagar vinna að því að fá leysta úr haldi þær hundruð þúsunda fanga, sem sitja í fangelsum um heim allan vegna friðsamlegrar tjáningar skoðana sinna eða trúarbragða. Þeir skrifa bréf til valdhafa og þrýsta á stjórnvöld, sem ábyrgð bera á slíkum mannréttindabrotum, og til fanganna sjálfra, til að glæða vonir þeirra og trú á framtíðina, þó að þeir dvelji iðulega við hræðilegar aðstæður og megi þola pyndingar og illa meðferð. Í texta þessarar sýningar má sjá tilvitnanir í nokkur þeirra þakkarbréfa, sem að fangarnir hafa skrifað til Amnesty félaga.

Sýningin verður í Ráðhúsi Reykjavíkur til 18. apríl. Fyrirhugað er að sýningin verði síðan sett upp sem víðast.

                                                                    Frá sýningunni í Ráðhúsi Reykjavíkur