Amnesty International fordæmir sprengjuárásirnar í Lundúnum

Amnesty International fordæmir sprengjuárásirnar í Lundúnum sem hafa kostað almenna borgara lífið og sært fjölda fólks alvarlega. Heimildir herma að sprengjur hafi sprungið á sex neðanjarðar-lestarstöðvum og einni strætisvagnastöð.

Árásir á almenna borgara eru aldrei réttlætanlegar. Árásin sem beindist að almennum borgurum á leið til vinnu sýnir algjört virðingarleysi gagnvart mannhelgi. Þeir sem ábyrgð bera á árásunum verða að svara til saka í réttarhöldum sem samræmast alþjóðlegum viðmiðum.

Árásin ber upp á sama dag og minningarathöfn um Peter Benenson stofnanda Amnesty International fer fram í St.Martins-in the Fields kirkjunni í Lundúnum. Ákall hans um samstöðu með öllum þeim sem sæta mannréttindabrotum er brýnt í dag sem alla daga.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur almenning til að koma á Lækjartorg kl. 17.00 í dag til að sýna samstöðu með fórnarlömbum árásanna í London, standa vörð um mannréttindi, minnast Peter Benenson og heiðra þær hugsjónir sem hann barðist fyrir. 
Fólk er hvatt til að taka með sér kerti og tendra þau.