Skrifið meira!’ brýnir fyrrverandi samviskufangi

“Þið getið ekki ímyndað ykkur hve mikils virði AI var okkur,” sagði Anwar Ibrahim, fyrrum aðstoðarforsætisráðherra Malasíu og frelsaður samviskufangi. “Hið gríðarlega framlag AI er ólýsanlegt.” Í ávarpi sínu til starfsmanna og sjálfboðaliða AI í London, þakkaði hann hreyfingunni fyrir stuðninginn þau sex ár sem hann sat í fangelsi vegna ákæru, sem runnin var af pólitískum rótum.

Anwar Ibrahim var handtekinn í herferð fyrir innanríkisöryggi í september 1998, þremur vikum eftir að hann var sviptur embætti sínu í ríkisstjórn. “Þeir brutust inn um dyrnar og æddu um húsið mitt,” sagði hann. Fyrir utan beið hans hópur fjölmiðlamanna. “Þeir voru að sýna mátt sinn,” útskýrði hann. “Ef við getum farið svona með Anwar þá er hinum ekki viðbjargandi.” Brottrekstur hans, sem kom í kjölfar ágreinings um stefnumál við forsætisráðherrann Mahathir Mohamed, varð kveikjan að fjölda kröfugangna þar sem krafist var pólitískra og félagslegra umbóta.

Uppspretta vonar

Anwar Ibrahim var haldið í einangrunarvist og hann barinn af þáverandi ríkislögreglustjóra, og fékk í fyrstu mjög takmarkað samneyti við fjölskyldu sinni. Konu hans, Dr. Wan Azizah, og börnum, var aðeins leyft að heimsækja hann í 40 mínútur á mánuði. Árum seinna jókst þetta í vikulegar heimsóknir. Þar sem þeim var bannað að koma með minnisblöð og skriffæri, þurfti Wan Azizah – og jafnvel börnin – að leggja á minnið samantektir af fjölmörgum skýrslum og bréfum sem skrifuð voru máli hans til stuðnings. Lögfræðingarnir smygluðu inn skýrslum í vikulegum heimsóknum þeirra. Upplýsingarnar, sagði hann, veittu honum “mikinn styrk og andlega uppörvun.”

 

Eftir að hafa verið dæmdur í 15 ára fangelsisvist eftir óréttlát réttarhöld, var Anwar Ibrahim sleppt í september 2004, þegar hæstiréttur Malasíu hnekkti fyrri dómi. Um þessar mundir dvelst hann utan Malasíu og heldur fyrirlestra í háskólum í Bandaríkjunum og Bretlandi. En þetta gerir hann ekki af fúsum og frjálsum vilja. “Þeir [stjórn Malasíu] hafa notað dómstólana til þess að meina mér embætti þar til 2008,” sagði hann. “Þeir hafa tekið af mér bílinn minn og lífeyrinn. Það er enginn möguleiki að fá starf.”

Þrátt fyrir þessar hömlur, er hann enn mikilvæg persóna í huga almennings í Malasíu. Heimsóknir hans í bæi og sveitir landsins draga að þúsundir einstaklinga. Þrátt fyrir að hann sé ekki virkur í stjórnmálum Malasíu, er hann staðráðinn að það muni breytast í framtíðinni. “Ég mun sannarlega snúa aftur,” sagði hann, “vegna þess að ef ég geri það ekki – og forðast áhættuna á stjórnmálavettvangi Malasíu – þá er ég að gefast upp fyrir þeim.”

 

Engin veruleg breyting

Handtaka og fangelsun Anwars Ibrahim, hleypti af stað miklum mótmælum almennings í Malasíu, sem mörgum hverjum var haldið í skefjum með valdi. Áköll komu í þúsunda tali hvaðanæva að úr heiminum. En Anwar Ibrahim lagði áherslu á að lausn hans væri engan veginn vísbending um verulega breytingu á hugarfari ríkisstjórnarinnar eða afstöðu til  mannréttinda.

“Dómskerfið er áfram eins og það var,” sagði hann. “Við höfum [einnig] þúsundir af farandverkafólki í fangelsi í Malasíu – stungið inn aðeins vegna þess að það er farandverkafólk… það er ekki þrælarnir okkar og það á ekki að koma þannig fram við það.”

Þrátt fyrir að fréttir af mannréttindabrotum séu vanalega hunsaðar af fjölmiðlum, sem handgengnir eru ríkisstjórninni, voru yfirlýsingar sem gefnar voru út af AI og öðrum mannréttindasamtökum, sem báðu um lausn Anwars Ibrahim, samt dreift um allt land.

Áköll sem stuðningsmenn um heim allan senda, skipta gífurlega miklu máli, sagði Anwar Ibrahim, jafnvel þótt þau nái aldrei eyrum almennings. “Þeir [ráðherrar ríkisstjórnarinnar] lesa þessi bréf. Þetta fer í taugarnar á þeim,” sagði hann. Skilaboðin hans til félaga Amnesty International eru skýr: “Skrifið meira, hafið meiri áhrif á þá!”