Ársskýrsla Amnesty International 2006 komin út

Í ársskýrslu Amnesty International er greint frá ástandi mannréttinda í 150 löndum. Upplýsingarnar byggja á rannsóknum samtakanna á síðasta ári.

Í ársskýrslu Amnesty International er greint frá ástandi mannréttinda í 150 löndum. Upplýsingarnar byggja á rannsóknum samtakanna á síðasta ári. Skýrslunni er skipt í þrjá megin hluta. Í fyrsta hlutanum er að finna ávarp Irene Kahn framkvæmda-stjóra aðalstöðva Amnesty International, greiningu á mannréttindaástandi í heiminum í dag og ítarlegt yfirlit yfir ástand í einstökum heimsálfum. Í öðrum hluta skýrslunnar er yfirlit um mannréttindaástand í einstökum löndum en í þeim hluta er fjallað um 150 lönd. Þriðji hluti skýrslunnar fjallar um aðgerðastarf Amnesty International og helstu aðgerðir og herferðir sem samtökin tókust á hendur á síðasta ári. Þar er einnig  listi yfir alþjóðlega mannréttindasamninga og þau lönd sem gerst hafa aðilar að þeim.

 

Árið 2005 var mótsagnakennt. Áhrifamiklar ríkisstjórnir grófu undan væntingum um aukin  mannréttindi, beittu  blekkingum og stóðu ekki við loforð sín.

 

Horft var framhjá alvarlegu ástandi mannréttinda víða um heim en sjónum beint að öryggismarkmiðum voldugra ríkja og forréttindahópa.

 

Ríkisstjórnir hafa einar sér og í sameiningu lamað alþjóðastofnanir og sóað opinberu fé í þágu þröngra öryggishagsmuna. Í skjóli ,,stríðsins gegn hryðjuverkum” hefur grundvallargildum verið fórnað  og horft fram hjá alvarlegum mannréttindabrotum. Þessari stefnu hefur verið framfylgt á kostnað mannréttinda, sem hefur haft neikvæð áhrif á líf og afkomu almennings.

 

Ómarkvissar og veikburða aðgerðir alþjóðasamfélagsins, Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins, voru í engu samræmi við þarfir íbúa Darfur, þar sem vopnuð átök hafa kostað þúsundir lífið og milljónir hafa verið flæmdir frá heimilum sínum, og allir aðilar átakanna gerst sekir um glæpi gegn mannkyni.

 

Átök og ofbeldi milli trúarhópa í Írak jukust á árinu og almennir borgarar og hinir snauðu og valdalausu þjást mest.

 

Ástandið í Ísrael og á herteknu svæðunum  hlaut litla athygli alþjóðasamfélagsins og horft var framhjá  og neyð og örvæntingu Palestínumanna og ótta almennings í Ísrael.

 

Árásir vopnaðra hópa einkenndust af grimmd og hrottaskap og fjölmargir voru drepnir í slíkum árásum.

 

Hryðjuverk framin af vopnuðum hópum eru ótæk og óafsakanleg. Sækja verður slíka árásarmenn til saka í réttlátum réttarhöldum, en ekki með pyndingum í leynilegum fangelsum. Þær aðferðir sem beitt hefur verið í ,,stríðinu gegn hryðjuverkum” hafa ekki byggt á mannréttindaviðmiðum heldur virðingarleysi við mannréttindi og slíkar aðferðir munu ekki skila árangri. 

 

Árið 2005 einkenndist af baráttu vonar við örvæntingu.

 

Á árinu spratt gríðarstór fjöldahreyfing almennings í baráttunni gegn fátækt og fyrir efnahagslegum og félagslegum réttindum. Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem efnt var til að skoða framfarir og innleiðingu þúsaldarmarkmiðanna, sýndi fram á hrapallegan árangur ríkisstjórna við að gera loforð að veruleika. Ríkisstjórnir ræddu um mannréttindi kvenna en náðu ekki markmiðum um jafnan rétt stúlkna til náms.

 

Réttlæti fékk framgang árið 2005 þegar alþjóðlegi sakamáladómstóllinn lagði fram fyrstu ákærur sínar fyrir glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi í Úganda. Friðhelgi fyrrum þjóðarleiðtoga í Rómönsku Ameríku var hnekkt þegar Augusto Pinochet var hnepptur í stofufangelsi og alþjóðlegri handtökuskipun beitt gegn Alberto Fujimori.

 

Dómstólar og aðrar stofnanir drógu áhrifamiklar ríkisstjórnir til ábyrgðar. Æðsti dómstóll Bretlands hafnaði áformum ríkisstjórnarinnar um að nota sönnunargögn sem náð er fram með pyndingum. Evrópuráðið og Evrópuþingið hófu rannsókn á þátttöku Evrópuríkja í ,,framsali” eða ólögmætum flutningi fanga til ríkja þar sem þeir eiga á hættu að sæta pyndingum eða öðrum misþyrmingum.

 

Margvísleg sönnunargögn sýndu umfang aðildar evrópskra ríkisstjórna að glæpum ásamt með Bandaríkjunum í trássi við algjört bann við pyndingum og illri meðferð með því að  flytja fanga til pyndinga til landa á borð við Egyptaland, Jórdaníu, Marokkó, Sádí Arabíu og Sýrlands, sem eru þekkt af slíku athæfi.

 

Bretaland leitaði eftir ,, staðfestingu yfirvalda” eða -pappírs tryggingu- til að geta vísað fólki til landa þar sem það á á hættu að sæta pyndingum. 

 

Bandaríska þingið staðfesti bann við pyndingum og annarri illri meðferð þrátt fyrir andstöðu Bush forseta. En takmarkaði síðan mjög rétt fanga í Guantánamo til að láta alríkisdómstóla fjalla um meðferð þeirra.

 

Á sama hátt og fordæma verður  hryðjuverkaárásir á almenna borgara er nauðsynlegt að verjast fullyrðingum ríkisstjórna um að hægt sé að berjast gegn hryðjuverkum með pyndingum. Tvöfeldni áhrifamikilla ríkisstjórna er hættuleg því hún dregur úr getu alþjóðasamfélagsins til að takast á við mannréttindavanda á borð við ástandið í Darfur, Tétsníu , Kólombíu, Afganistan, Íran, Usbekistan og Norður-Kóreu og þeir sem ábyrgð bera á mannréttindabrotum komast upp með það án þess að svara til saka.  

 

Svo lengi sem breska ríkisstjórnin þegir um handahófskennda varðhaldsvist og illa meðferð í Guantanamo, svo lengi sem Bandaríkin sniðganga hið algjöra  banni við pyndingum, svo lengi sem evrópskar ríkisstjórnir þegja um framferði sitt er lýtur að framsali, kynþáttafordómum eða flóttafólki, grafa þær undan trúverðugleika sínum er kemur að því að stuðla að mannréttindum annars staðar í heiminum. 

 

Á sama tíma og Sameinuðu þjóðirnar eyddu miklum tíma í umræður um endurbætur og aðild að lykilstofnunum samtakanna, horfðu þær fram hjá framferði tveggja lykilþjóða – Kína og Rússlands – sem hafa æ ofan í æ tekið  þrönga pólitíska og efnahagslega hagsmuni fram yfir mannréttindi innanlands og á alþjóðavettvangi.

 

Þeir sem bera mesta ábyrgð á alþjóðaöryggi í Öryggisráði S.þ. reyndust fúsastir til að lama ráðið og hindra það í að beita sér á virkan hátt í þágu mannréttinda. Valdamiklar ríkisstjórnir leika hættulegan leik með mannréttindi. Langvinn átök og aukin mannréttindabrot bera því vitni.

 

Á árinu 2005 tók almenningsálitið að breytast. Þann þrýsting sem er að myndast verður að nota á árangursríkan hátt í þágu mannréttinda. 

 

Helstu kröfur Amnesty International árið 2006 beinast að:

 

Sameinuðu þjóðunum og Afríkusambandinu sem hvött eru til að takast á við átökin í Darfur og binda endi á mannréttindabrot þar. 

 Sameinuðu þjóðunum sem hvattar eru til að vinna að vopnaviðskiptasáttmála, sem stýri viðskiptum með smávopn þannig að þau séu ekki notuð til að fremja mannréttindabrot.

 Bandarískum stjórnvöldum sem hvött eru til að loka fangabúðunum í Guantánamo og greina frá nöfnum allra fanga sem haldið er í ,,stríðinu gegn hryðjuverkum” og hvar þeir eru hafðir í haldi

 Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sem hvatt er til að þ krefjast sömu viðmiða um virðingu fyrir mannréttindum af öllum ríkisstjórnum hvort sem það er í Darfúr, eða Guantánamo, Tétsníu eða Kína.

 

Pólitískt og siðferðilegt umboð ríkisstjórna mun í auknum mæli vera metið eftir virðingu þeirra fyrir mannréttindum heimafyrir og á alþjóðavettvangi.

Sem aldrei fyrr þarf heimurinn á því að halda að valdamikil ríki á alþjóðavettvangi

– fastaríkin í Öryggisráði S.þ. og þau ríki sem vilja fá þar fast sæti- komi fram af ábyrgð og virðingu fyrir mannréttindum.  Ríkisstjórnir verða að taka mannréttindi alvarlega og láta af leik sínum með þau.