Átökin í Líbanon og Ísrael

Á vegum okkar eru nú rannsóknanefndir annars vegar í Líbanon og hins vegar í Norður-Ísrael. Á slóðinni http://amnestylebanonisrael.blogspot.com/ er hægt að fylgjast með ferðinni og fyrstu niðurstöðum.

Á vegum okkar eru nú rannsóknanefndir annars vegar í Líbanon og hins vegar í Norður-Ísrael. Á slóðinni http://amnestylebanonisrael.blogspot.com/ er hægt að fylgjast með ferðinni og fyrstu niðurstöðum.

Íslandsdeildin hefur skrifað bréf til utanríkisráðherra og farið fram á að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að Öryggisráð S.þ. taki mið af kröfum Amnesty International sem eru:

Komið verði á vopnahléi tafarlaust og mannúðaraðstoð og vernd óbreyttra borgara verði tryggð.

Stríðandi aðilar fari að mannúðarlögum.

Öll vopnasala  til stríðandi aðila verði stöðvuð nú þegar.

Fram fari óháð rannsókn á stríðsglæpum og öðrum brotum á alþjóðlegum     mannúðarlögum.

Óbreyttir borgarar hafa verið skotmörk ísraelska hersins í Líbanon og skotmörk Hizbullah í norðurhluta Ísrael. Mannfall í átökunum er orðið gífurlegt og flestir hinna föllnu eru óbreyttir borgarar.  Átökin hafa nú staðið í tæpan mánuð. Fyrir sprengjum og flugskeytum verða almennir borgarar, hjálparstarfsmenn, sjúkraflutningabílar, vegir sem flóttafólk notar til að komast á brott, rafstöðvar og önnur borgaraleg mannvirki. Árásirnar eru gróf brot á mannúðarlögum og teljast stríðsglæpir.

Eingöngu tafarlaust vopnahlé getur verndað almenna borgara í Líbanon og Ísrael, þar sem kröfur til stríðandi aðila um að fara að mannúðarlögum hafa enn engin áhrif haft. 

Félagar eru hvattir til að fylgjast með aðgerðabeiðnum samtakanna á slóðinni http://web.amnesty.org/pages/lebanonisrael-index-eng