Írak

 
Íslandsdeild Amnesty International lýsir fordæmingu sinni á aftöku Saddam Hussein. Sakadómstóll í Írak kvað upp dauðadóm yfir Saddam Hussein og tveimur samverkamönnum hans eftir meingölluð og óréttlát réttarhöld.

Íslandsdeild Amnesty International lýsir fordæmingu sinni á aftöku Saddam Hussein. Sakadómstóll í Írak kvað upp dauðadóm yfir Saddam Hussein og tveimur samverkamönnum hans eftir meingölluð og óréttlát réttarhöld. Einræðisherrann fyrrverandi var dæmdur 5. nóvember 2006 vegna morða á 148 einstaklingum frá þorpinu al Dujail árið 1982. Refsing hans var staðfest af íröskum áfrýjunardómstól 26. desember s.l.

Amnesty International berst gegn dauðarefsingum í öllum tilvikum og telur dauðarefsingar vera ómannúðlegar, niðurlægjandi og brjóta gegn réttinum til lífsins.

Samtökin harma að áfrýjunardómstóllinn hafi ekki fjallað um þá miklu annmarka sem voru á réttarhöldunum yfir Saddam Hussein og leiddu til þess að réttarhöldin stóðust ekki kröfur alþjóðlegra mannréttindasamninga um sanngjörn réttarhöld. Pólítísk afskipti af réttarhöldunum og það andrúmsloft sem þau fóru fram í eru meðal þess sem leiddi til þess að réttarhöldin standast ekki alþjóðlegar kröfur. Sér í lagi grófu afskipti stjórnmálaafla undan sjálfstæði og hlutleysi réttarins og urðu til þess að fyrsti yfirdómarinn sagði af sér og erfitt reyndist að skipa eftirmann.  Rétturinn gerði ekki nægilegar ráðstafanir til að vernda vitni og verjendur, þrír þeirra voru ráðnir af dögum meðan á réttarhöldunum stóð.  Saddam Hussein var einnig neitað um aðgang að lögfræðiaðstoð í heilt ár eftir að hann var handtekinn.

 Amnesty International fagnaði á sínum tíma ákvörðuninni um að sækja Saddam Hussein til saka fyrir þau mannréttindabrot sem framin voru í stjórnartíð hans í Írak, en það átti að sjálfsögðu að gerast með sanngjörnum réttarhöldum.

Réttarhöldin hefðu getað orðið afar mikilvægur þáttur í því að festa réttlæti og lög í sessi í Írak, tryggja að sannleikurinn um stórfelld mannréttindabrot í valdatíð Saddam Hussein kæmi í ljós og að hinir seku yrðu dregnir til ábyrgðar.

Framkvæmd réttarhaldanna einkenndist af alvarlegum göllum og það vekur upp efasemdir um getu dómsins til að kveða upp réttláta dóma í samræmi við alþjóðleg viðmið. Réttarhöldin yfir Saddam Hussein voru tækifæri til að stíga mikilvægt skerf í þá átt að koma á réttarríki í Írak og auka traust borgaranna á réttarkerfinu.

Þessi gölluðu réttahöld og aftaka Saddam Hussein grefur undan möguleikum á að leiða í ljós sannleikann um hvað átti sér stað í Írak á valdatíð hans. Íraska  þjóðin á rétt á að fá að vita sannleikann um glæpina sem framdir voru í valdatíð Saddam Hussein.

Með aftöku hans hefur mikilvægu  tækifæri til að gera upp fortíðina og leita réttlætis verið glutrað niður

Tækifærið til að endurreisa grundvallarmannréttindi og samtímis tryggja réttlæti vegna glæpa sem framdir voru  í valdatíð Saddam Hussein hefur farið forgörðum og mikil hætta er á að ástandið í Írak versni enn frekar í kjölfar aftökunnar.