Hér á eftir fylgir umsögn Íslandsdeildar Amnesty International um frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna
Nefndasvið Alþingi
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík 27. 02.2007
Vísað er til frumvarps til laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu, þskj. 566, mál nr. 443.
Utanríkismálanefnd sendi ekki Íslandsdeild Amnesty International (AI) ofangreint frumvarp til umsagnar. AI eru alþjóðleg samtök sem vinna að vernd og framgangi mannréttinda. Dæmin sýna að friðargæsluliðar hafa ítrekað gerst sekir um gróf brot gegn alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum, svo sem í Sómalíu, Kosovo og í Sierra Leone svo nokkur dæmi séu nefnd. Íslandsdeild AI vill því koma eftirfarandi athugasemdum varðandi umrætt frumvarp á framfæri við háttvirta utanríkismálanefnd:
2. gr. Í greininni kemur fram að friðargæsluliðar heyri í daglegum störfum sínum undir stjórn viðkomandi samtaka eða stofnunar nema annað sé ákveðið. Í þessu sambandi leggur AI áherslu á að íslensk stjórnvöld geri það sem í þeirra valdi stendur til að ganga úr skugga um að hlutaðeigandi samtök og stofnanir virði alþjóðleg mannréttinda- og mannúðarlög í hvívetna. Sé minnsti vafi á því verður að vera tryggt að íslenskir friðargæsluliðar séu ekki settir undir boðvald slíkra aðila.
5. gr. Ljóst er að friðargæsluliðar eru yfirleitt sendir til starfa á átakasvæðum eða öðrum svæðum þar sem ástand er ótryggt. Við slíkar aðstæður eru stofnanir sem eiga að standa vörð um mannréttindi undantekningalítið veikar eða alls ekki til staðar. Reynslan sýnir að undir slíkum kringumstæðum er afar mikil hætta á að grundvallarmannréttindi fólks séu ekki virt eða jafnvel fótum troðin. Því miður er það svo að liðsmenn friðargæslusveita hafa í sumum tilvikum ekki aðeins brugðist skyldu sinni til að koma í veg fyrir umrædd brot heldur hafa þeir jafnvel verið beinlínis ábyrgir fyrir þeim. Því er nauðsynlegt að tryggt sé að í íslenskum lögum séu nægileg viðurlög til að veita fólki á umræddum svæðum fullnægjandi vernd gagnvart hugsanlegum brotum íslenskra friðargæsluliða gegn mannréttinda- og/eða mannúðarlögum. Með vísan til þessa telur AI nauðsynlegt að tekið verði til gaumgæfilegrar skoðunar í sambandi við þetta lagafrumvarp hvort í íslenskum refsilögum séu nægileg viðurlög og úrræði til að standast kröfur alþjóðlegra mannréttindasáttmála og mannúðarlaga sem þýðingu geta haft í þessu sambandi, s.s. Genfarsáttmálans og samnings um alþjóðlega sakamáladómstólinn (ICC).
6. gr. AI telur ekki rétt að slakað verði á þeim lagalegu skilyrðum sem almennt eru forsenda þess að menn geti borið fyrir sig neyðarvörn að íslenskum rétti. Með því væri dregið úr þeirri vernd sem fólk á svæðum sem friðargæsluliðar starfa á þarf að njóta gagnvart hugsanlegum refsiverðum brotum þeirra. AI leggur áherslu á mikilvægi þess að til friðargæslustarfa veljist fólk sem ætla má að geti tekið réttar ákvarðanir undir erfiðum og óvenjulegum kringumstæðum, sbr. það sem segir um 9. gr. hér að neðan.
7. gr. AI leggur ríka áherslu á að þagmælska sú sem mælt er fyrir um í greininni megi aldrei leiða til þess að íslenskir friðargæsluliðar greini ekki frá mannréttindabrotum og brotum gegn mannúðarlögum sem þeir kunna að verða vitni að. AI telur að í lögum og reglum varðandi íslenska friðargæsluliða verði að vera skýrt að þeim sé skylt að upplýsa með fullnægjandi hætti um slík brot sem þeir verða vitni að eða fá áreiðanlegar upplýsingar um, burtséð frá hvaða starfsreglur kunna að gilda í stofnun þeirri eða samtökum sem þeir heyra hverju sinni undir.
9. gr. AI telur afar mikilvægt að vel sé vandað til ráðninga og þjálfunar friðargæsluliða.
AI telur því rétt að lögbundin verði tiltekin lágmarksskilyrði sem eru til þess fallin að tryggja það. Eðlilegt virðist t.a.m. að í lögunum sé mælt fyrir um ákveðinn lágmarks-aldur friðargæsluliða. Þá telur AI rétt að í lögunum sé kveðið á um að íslenskir friðargæsluliðar skuli fái fullnægjandi kennslu í mannréttinda- og mannúðarlögum og að þeim verði gert að sýna fram á lágmarksþekkingu að þessu leyti áður en þeir eru sendir til starfa. Slík þjálfun er að mati AI ekki síður mikilvæg en sú þjálfun í vopnaburði sem kveðið er á um í 3.gr. frumvarpsins.
Virðingarfyllst
Árni Múli Jónasson Jóhanna K. Eyjólfsdóttir
Formaður Framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International Íslandsdeildar Amnesty International
