Mannréttindabarátta: Marisela Ortiz Rivera á Íslandi

Árið 1993 hófst alda morða í borginni Ciudad Juárez, sem ekki sér enn fyrir endann á. 400 konur hafa horfið og fundist síðar myrtar. Óþekktur fjöldi kvenna hefur horfið sporlaust. Flest fórnarlambanna eru stúlkur og konur á aldrinum 13-22 ára og meirihluti þeirra stundar nám eða starfar í verksmiðjum fjölþjóðlegra fyrirtækja í borginni.

Marisela Ortiz Rivera með póstkort frá Íslandsdeild sem útbúið var til að þrýsta á mexíkósk stjórnvöld

 

Árið 1993 hófst alda morða í borginni Ciudad Juárez, sem ekki sér enn fyrir endann á. 400 konur hafa horfið og fundist síðar myrtar. Óþekktur fjöldi kvenna hefur horfið sporlaust. Flest fórnarlambanna eru stúlkur og konur á aldrinum 13-22 ára og meirihluti þeirra stundar nám eða starfar í verksmiðjum fjölþjóðlegra fyrirtækja í borginni. Fimmtungur kvennanna þurfti að sæta kynferðisofbeldi og/eða limlestingum áður en þær voru myrtar. Morðin á konunum í Ciudad Juárez er því ein hræðilegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis í heiminum. Nær algert refsileysi ríkir í málum kvennanna 400.

Marisela Ortiz Rivera hefur ferðast um heim allan til að vekja athygli á kvennamorðunum í Ciudad Juárez og hvetja alþjóðasamfélagið til að þrýsta á mexíkósk stjórnvöld. Í mars sl. ferðaðist hún um Belgíu og Frakkland og sótti loks Ísland heim 14.-19. mars í boði Íslandsdeildar Amnesty International. Marisela hélt m.a. fjölsóttan fyrirlestur á vegum Íslansdeildar Amnesty International og Cervantes-seturs auk þess sem hún veitti fjölmiðlum viðtöl, heimsótti mexíkóskar konur búsettar á Íslandi og skoðaði landið.

 

Hún sagði að hún hefði fyrst ákveðið að berjast gegn refsileysi í málum látinna kvenna í Ciudad Juárez þegar hún missti stúlku sem var mjög nákomin sér. Lilia Alejandra García Andrade var dóttir vinkonu hennar og nemandi hennar. Marisela hafði fylgst með stúlkunni vaxa úr grasi en árið 2001 fannst limlest lík Alejöndru á yfirgefnu svæði í Ciudad Juárez. Stúlkan var þá aðeins 17 ára.

 

„Það er því miður ekki fyrr en maður missir einhvern nákominn sem maður gerir eitthvað í málunum“ sagði Marisela. Dauði Alejöndru varð til þess að Marisela og móðir stúlkunnar, Norma Andrade, stofnuðu samtökin Nuestras Hijas de Regreso a Casa til að berjast gegn refsileysi í málum kvennanna 400 sem hlotið hafa sömu örlög og Lilia Alejandra García Andrade. Auk þess annast samtökin munaðarlaus börn fórnarlambanna og vinna forvarnarstarf með ungu fólki í Ciudad Juárez.

 

Marisela og samtök hennar telja að kvennamorðin séu innvígslupróf í glæpagengi sem ráða lögum og lofum í Ciudad Juárez. Nýir meðlimir verði að sýna að þeir séu samviskulausir og geti framið hrottaleg morð á saklausum einstaklingum án þess að blikna. Hún telur einnig að ungar, fátækar konur séu hentug fórnarlömb þar sem þær hafi engin völd og yfirvöld kæri sig ekki um afdrif þeirra.

 

Barátta Mariselu og Nuestras Hijas de Regreso a Casa er við valdamestu einstaklinga Ciudad Juárez og hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Svæðisyfirvöld hafa reynt að þagga málin niður og ásakað hana um að sverta ímynd borgarinnar. Hún hefur sætt hótunum og ógnunum vegna starfs síns. Árið 2003 gaf Amnesty International út skyndiaðgerðabeiðni þar sem félagar voru hvattir til að skrifa til stjórnvalda fyrir hennar hönd. Þá höfðu menn elt hana í tveimur bílum og hótað því að myrða hana og fjölskyldu hennar ef hún héldi áfram að tala opinskátt um morðin. Þrátt fyrir að aðgerðir Amnesty International, og annarra, hafi veitt henni aukna vernd hefur fjölskylda hennar tvístrast vegna hótana. Dætur hennar og fleiri fjölskyldumeðlimir hafa flutt  til Bandaríkjanna í öruggt skjól.

 

Marisela er Amnesty International mjög þakklát fyrir það starf sem félagar hafa unnið fyrir hennar hönd.

Frá málþingi Íslandsdeildar Amnesty International og Cervantes-seturs um “mannshvörf” á ungum stúlkum í Ciudad Juárez