Mannréttindabarátta: Kveðja frá Mariselu Ortiz Rivera

14.-19. mars varð Íslandsdeild Amnesty International þess heiðurs aðnjótandi að fá Mariselu Ortiz Rivera mannréttindafrömuð í heimsókn.

14.-19. mars varð Íslandsdeild Amnesty International þess heiðurs aðnjótandi að fá Mariselu Ortiz Rivera mannréttindafrömuð í heimsókn. Marisela hefur barist ötullega gegn refsileysi í málum 400 kvenna sem hafa verið myrtar í borginni Ciudad Juárez í Norður-Mexíkó. Árið 2003 tók Amnesty International upp mál Mariselu þegar henni hafði verið hótað lífláti vegna vinnu sinnar. Marisela vildi koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri til Amnesty-félaga:

„Mig langar til að nota þetta tækifæri til að þakka Amnesty International fyrir sinn mikla stuðning við samtök okkar, „Dæturnar aftur heim“ sem eru skipuð fjölskyldum og vinum þeirra kvenna sem hafa horfið eða verið myrtar í Ciudad Juárez. Samtökin berjast fyrir að upplýsa mál dætra okkar sem hafa horfið eða verið myrtar, en margar þeirra urðu fyrir grimmilegum nauðgunum og pyntingum áður en þær voru drepnar. Vegna þess að við höfum kært þessa glæpi og reynt að finna lausn hefur okkur verið margoft hótað. Við höfum lent í erfiðleikum í samskiptum okkar við yfirvöld í Chihuahua-fylki sem og við mexíkönsk yfirvöld. Litið hefur verið á okkur sem óvini og við beitt ýmsum hótunum. Þökk sé Amnesty International erum við, ég og fjölskylda mín, á lífi, en árið 2003 urðum við fyrir margs konar ofbeldi. Okkur var jafnvel ógnað með byssum og hótað lífláti og við lögð í einelti. Að baki þessum ógnunum standa ráðamenn fylkisins og lögreglan í Chihuaha sem vildu drepa okkur. Við þökkum Amnesty International fyrir það að við erum á lífi í dag en samtökin komu af stað alþjóðlegri herferð þar sem þúsundir manna sendu bréf með kröfu til mexíkanskra stjórnvalda og einnig til yfirvalda í Chihuahua og í Juárezborg um virðingu fyrir lífi okkar og mannréttindum. Við þökkum Amnesty International einlæglega fyrir aðstoðina. Vegna AI erum við, fjölskylda mín og ég, á lífi í dag.“

Marisela Ortiz, Ciudad de Juárez, 2007

Allir geta veitt Mariselu, samtökum hennar og aðstandendum fórnarlambanna frekari aðstoð með því að rita nöfn sín á undirskriftarlista samtakanna, http://www.petitiononline.com/JUAREZ/petition.html