Kína: Mannréttindi í aðdraganda Ólympíuleika

Íslandsdeild Amnesty International hefur sent Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands skýrsluna People‘s Republic of China. The Olympics countdown: Repression of activists overshadows death penalty and media reforms[1] sem gerir ítarlega grein fyrir þeim mannréttindabrotum sem eiga sér stað í aðdraganda Ólympíuleikanna í Peking í Kína á næsta ári.

Amnesty International hefur fylgst með mannréttindaástandinu í Kína í aðdraganda Ólympíuleikanna. Samtökin hafa séð ríkara umburðarlyndi gagnvart ákveðnum aðgerðasinnum en yfirvöld halda þó áfram að áreita aðra sem fjalla á umfangsmeiri hátt um mannréttindabrot.

Amnesty International vekur athygli á mismunandi viðmiðum fyrir innlenda og erlenda fjölmiðla, þrátt fyrir að kínversk stjórnvöld hafi lofað „fullkomnu fjölmiðlafrelsi“ á Ólympíuleikunum. Erlendir fjölmiðlar hafa fengið leyfi til að stunda fréttamennsku án þess að þurfa að sækja um leyfi hjá yfirvöldum á svæðinu. Hins vegar er líklegt að almenningur í Kína fái ekki aðgang að erlendum fréttum um viðkvæm málefni, sérstaklega eftir nýjar reglur voru settar september 2006, sem styrktu yfirráð stjórnvalda yfir dreifingu á erlendu fréttaefni í Kína. Aðgerðir stjórnvalda undanfarna mánuði hafa einnig hert stjórn þeirra á innlendum fréttamiðlum og vefmiðlum auk þess sem þau hafa ritskoðað netsíður, blogg og greinar á veraldarvefnum.

Í byrjun árs voru áfrýjunarmöguleikar auknir í dauðarefsingarmálum. Amnesty International fagnaði ákvörðuninni í þeirri von að hin nýja ráðstöfun myndi draga úr dauðarefsingum. Hins vegar er erfitt að meta áhrif hæstaréttar þar sem gagnsæi er lítið. T.d. upplýsti fréttamiðill í Xinhua þann 19. mars að hæstiréttur hefði fellt fjóra dauðadóma frá ársbyrjun. Hins vegar hefur Amnesty International fréttir af aftökum minnst 13 annarra einstaklinga.[2]

Amnesty International fær enn frásagnir af einstaklingum sem eru settir í „endurmenntun gegnum vinnu“ og annars konar varðhald án ákæru, dóms eða dómsumfjöllunar. Samtökin óttast að þessar hörðu refsingar séu notaðar til að halda smáglæpamönnum, umrenningum, fíkniefnaneytendum og öðrum burtu í því skyni að „hreinsa“ Peking fyrir Ólympíuleikana.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands til að kynna skýrsluna meðal þeirra sem standa að undirbúningi að þátttöku Íslands á Ólympíuleikunum og vekja athygli á því misræmi sem ríkir á milli raunverulegs ástands og loforða kínverskra yfirvalda um endurbætur í mannréttindamálum í tengslum við val á Peking sem Ólympíuborgar.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands til að standa vörð um Ólympíuandann og beita sér í þágu úrbóta í mannréttindamálum í Kína.

[1] http://web.amnesty.org/library/Index/ENGASA170152007?open&of=ENG-CHN

2 Samkvæmt heimildum AI voru felldir 2.790 dauðadómar í Kína á síðasta ári og 1.010 einstaklingar voru teknir af lífi. Samtökin áætla að raunverulegar tölur um dauðadóma og aftökur séu mun hærri. Í Kína er 68 brotaflokkar sem geta leitt til dauðadóms.