Í framhaldi af nýlegri Kínaheimsókn forseta Íslands

Í framhaldi af nýlegri heimsókn forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar til Kína sendi Íslandsdeild Amnesty International forseta ítarlegt bréf.

Í framhaldi af nýlegri heimsókn forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar til Kína sendi Íslandsdeild Amnesty International forseta ítarlegt bréf. Í bréfinu er forseti hvattur til að taka mannréttindamál ávallt upp á fundum með stjórnvöldum og forystufólki í viðskiptalífi í ríkjum þar sem vitað er að mannréttindi eru fótum troðin.

Lesa má bréfið hér að neðan.

Hr. forseti Ólafur Ragnar Grímsson

Skrifstofa forseta Íslands

Sóleyjargötu 1

101 Reykjavík                                                                         Reykjavík 05.10.2007

 

  

Háttvirti forseti

 

Utanríkisráðuneytið kynnti í apríl á þessu ári stefnu íslenskra stjórnvalda um mannréttindi í íslenskri utanríkisstefnu[1]. Þar segir m.a.: „Ísland ræðir ástand mannréttindamála, á tvíhliða fundum jafnt sem fjölþjóðlegum.“[2] Þar segir einnig: „Ríki sem brjóta mannréttindi halda því gjarnan fram að alþjóðlegir mannréttindastaðlar séu vestræn viðmið sem þvingað hafi verið upp á heimsbyggðina. Íslensk stjórnvöld hafna slíkum röksemdum.“ [3]

Alkunna er að stjórnvöld í Kína hafa brotið og brjóta enn gegn alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum með margvíslegum hætti. Með hliðsjón af því, sem og fyrrnefndri stefnu í mannréttindamálum, vakti það athygli Íslandsdeildar Amnesty International að í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands þar sem greint er frá fundi yðar með Hu Jintao forseta Kína kemur hvergi fram að mannréttindamál hafi borið á góma á fundinum.   Af þessu tilefni vill Íslandsdeild AI koma eftirfarandi á framfæri við yður:

Amnesty International hefur um langt árabil fylgst náið með ástandi mannréttindamála í Kína. Þrátt fyrir að nokkrar úrbætur hafi orðið á tilteknum sviðum viðgangast enn alvarleg mannréttindabrot í landinu svo sem dauðarefsingar, skerðingar á félaga- og tjáningarfrelsi og brot á réttindum farandverkafólks.

 

Dauðarefsingar og varðhald án ákæru

Í byrjun þessa árs voru möguleikar til áfrýjunar á dauðadómum til hæstaréttar nokkuð auknir. Amnesty International fagnaði ákvörðuninni í þeirri von að hin nýja ráðstöfun myndi draga úr dauðarefsingum. Erfitt er þó að meta áhrif umræddra breytinga þar sem gagnsæi í kínverska dómskerfinu er lítið. Samkvæmt heimildum Amnesty International voru felldir 2.790 dauðadómar í Kína á síðasta ári og 1.010 einstaklingar voru teknir af lífi. Samtökin áætla að réttar tölur um dauðadóma og aftökur séu mun hærri.

Þá hefur Amnesty International áreiðanlegar heimildir fyrir því að kínversk stjórnvöld neyða enn fólk til „endurmenntunar gegnum vinnu“ og beita annars konar varðhaldi án ákæru, dóms eða dómsumfjöllunar.

 

Innlendir blaðamenn njóta ekki tjáningarfrelsis

Amnesty International vekur athygli á að heimildir innlendra fjölmiðla í Kína eru takmarkaðri en erlendra. Almenningur í Kína fær þó ekki aðgang að erlendum fréttum um viðkvæm málefni, sérstaklega eftir að nýjar reglur voru settar í september 2006, sem styrktu yfirráð stjórnvalda yfir dreifingu á erlendu fréttaefni. Aðgerðir yfirvalda undanfarna mánuði hafa einnig hert stjórn þeirra á innlendum fréttamiðlum og vefmiðlum, auk þess sem þau hafa ritskoðað netsíður, blogg og greinar á veraldarvefnum.

 

Fórnarkostnaður efnahagsundursins

Hið svokallaða efnahagsundur í Kína á sér alvarlegar skuggahliðar. Áætlað er að þegar hafi á bilinu 150–200 milljónir farandverkamanna flust til kínverskra borga í leit að vinnu og mun sú tala fara hækkandi á komandi áratug. Farandverkafólkið er gjarnan neytt til að vinna mikla yfirvinnu, því er neitað um frí, jafnvel þegar það á við veikindi að stríða, og því er gert að vinna við hættulegar aðstæður fyrir lítil sem engin laun.

Farandverkafólkið þarf ekki eingöngu að þola óréttlæti af hálfu vinnuveitenda, heldur mismunar ríkisvaldið fjölskyldum þess á nánast öllum sviðum daglegs lífs. Því er neitað um húsnæðisbætur og sjúkratryggingar sem borgarbúum standa almennt til boða og börnum farandverkafólks er oft meinaður aðgangur að skólakerfinu.

Atvinnurekendur beita ýmsum aðferðum til að koma í veg fyrir að verkamenn segi upp störfum. Launagreiðslum til farandverkafólks er gjarnan frestað, þannig að verkafólk sem hættir störfum tapar 2–3 mánaða launum. Oft halda vinnuveitendur launum eftir fram yfir kínverska nýárið til að tryggja að fólk snúi aftur til vinnu að hátíðisdögum loknum og það gerir að verkum að milljónir verkamanna hafa ekki efni á að ferðast heim til fjölskyldna sinna yfir hátíðirnar. Þá neyða atvinnurekendur verkafólk oft til að greiða tryggingu, í trássi við lög, til að koma í veg fyrir að það leiti sér vinnu annars staðar.

Slíkar aðferðir gera atvinnurekendum kleift að bregðast við aukinni eftirspurn eftir vinnuafli án þess þó að hækka laun. Þetta skýrir hvers vegna laun hafa ekki hækkað í samræmi við þann skort sem er á vinnuafli, eins og búast mætti við í venjulegu markaðsumhverfi. Fjölmörg fyrirtæki sem ráða til sín farandverkafólk sinna ekki skyldum til að gera skriflega ráðningarsamninga og tryggja fólki réttlát launakjör og frítíma, auk þess sem aðbúnaði og öryggi á vinnustöðum er mjög ábótavant. 

Kínversk yfirvöld hafa brugðist skyldum sínum til að verja fólk fyrir ofannefndum mannréttindabrotum og hafa jafnframt neitað því um félaga- og tjáningarfrelsi en þau mannréttindi eru forsenda þess að fólk geti staðið vörð um réttindi sín.

 

 Íslandsdeild Amnesty International vill að lokum hvetja yður til að taka mannréttindamál ávallt upp á fundum með stjórnvöldum og forystufólki í viðskiptalífi í ríkjum þar sem vitað er að mannréttindi eru fótum troðin. Hjálögð sendist ársskýrsla AI en þar er fjallað um ástand mannréttinda í einstökum ríkum.

 

Virðingarfyllst

 

 

Árni Múli Jónasson                                            Jóhanna K. Eyjólfsdóttir

Formaður                                                              Framkvæmdastjóri

Íslandsdeildar Amnesty International             Íslandsdeildar Amnesty International

 

Hjálagt:

 

-Amnesty International Report 2007, the state of the world´s human rights

(POL 10/001/2007)

 

-Peoples Republic of China, the Olympics countdown-one year left to fulfil human rights promises (ASA 17/024/2007)

[1] Mannréttindi í íslenskri utanríkisstefnu, Utanríkisráðuneytið 2007.

[2] Sama heimild bls. 8.

[3] Sama heimild bls. 9.