Íslandsdeild Amnesty International sendi dómsmálaráðherra bréf þann 23. október síðastliðinn þar sem ráðherrann er hvattur til að taka mið af tilmælum Amnesty International við undirbúning að fullgildingu valfrjálsu bókunarinnar.
Íslandsdeild Amnesty International sendi dómsmálaráðherra bréf þann 23. október síðastliðinn þar sem ráðherrann er hvattur til að beita sér fyrir því að Alþingi fullgildi valfrjálsa bókun við alþjóðsamning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra
Dómsmálaráðuneytið
Skuggasundi
150 Reykjavík Reykjavík 23.10.2007
Háttvirti dómsmálaráðherra
Mannréttindasamtökin Amnesty International byggja starf sitt á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum. Einn liður í starfi samtakanna lýtur að því að hvetja ríkisstjórnir til að gerast aðilar að alþjóðlegum mannréttindasamningum og tryggja framfylgd þeirra. Ísland er aðili að fjölmörgum slíkum samningum þ.á.m alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Ísland skrifaði hinn 23. september árið 2003 undir valfrjálsa bókun sem gerð hefur verið við umræddan samning. Bókunin felur m.a. í sér að komið er á alþjóðlegri eftirlitsnefnd sem er heimilað skoða aðstæður í þeim löndum sem fullgilda bókunina. Einnig er gert ráð fyrir að þau ríki sem fullgilda bókunina grípi til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir pyndingar. Íslandsdeild Amnesty International fagnar undirskrift Íslands og vekur athygli á því að nú eru rúm fjögur ár liðin frá undirskriftinni og brýnt að Alþingi fullgildi bókunina hið fyrsta.
Amnesty International hefur sett fram tíu meginreglur sem samtökin telja mikilvægt að tekið sé mið af við ákvörðun um hvernig fyrirbyggjandi aðgerðum skuli háttað og vill Íslandsdeild Amnesty International hvetja yður til að taka tillit til þessara meginregla við undirbúning fullgildingar valfrjálsrar bókunar við alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum.
Virðingarfyllst
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir
Framkvæmdastjóri
Íslandsdeildar Amnesty International
