Enn halda stjórnvöld í Pakistan áfram að handtaka og ofsækja baráttufólk fyrir mannréttindum, lögfræðinga og stuðningsfólk stjórnmálaflokka.
Enn halda stjórnvöld í Pakistan áfram að handtaka og ofsækja baráttufólk fyrir mannréttindum, lögfræðinga og stuðningsfólk stjórnmálaflokka.
Fjöldahandtökur á flokksmönnum stjórnarandstöðuflokka hafa farið fram undanfarna daga um allt Pakistan. Lögregla hefur notað kylfur og táragas til að leysa upp friðsamleg mótmæli og handtekið mótmælendur.
Þann 14. nóvember voru 37 baráttukonur í stjórnarandstöðuflokknum Alþýðuflokkur Pakistan hnepptar í varðhald í sex daga samkvæmt úrskurði hryðjuverkadómstóls. Lögreglan hefur lagt fram kærur á hendur konunum á grundvelli hryðjuverkalaga. Fregnir herma að konur í hópi mótmælenda hafi mátt þola miklar barsmíðar lögreglu.
Musharraf hershöfðingi notaði vald sitt sem yfirmaður hersins til að afnema megnið af stjórnarskránni þann 3. nóvember og tók sér vald til að breyta henni án þess að löggjafarþingið kæmi þar nærri.
Amnesty International (AI ) hefur hvatt til þess að stjórnarskráin hljóti gildi aftur þegar í stað og að hundruðum einstaklinga verði sleppt, sem handteknir hafa verið í aðgerðum hersins. Neyðarástandið sem Musharraf lýsti yfir er gróft brot á alþjóðalögum og ryður brautina fyrir frekari mannréttindabrot.
Musharraf hershöfðingi hefur farið á svig við ákvæði í stjórnarskránni þegar hann lýsti yfir neyðarástandi. Það þýðir að ýmis lykilmannréttindi, eins og þau að vera ekki sviptur lífi af geðþóttaástæðum og ýmis ákvæði tengd sanngirni í réttarhöldum, hafa nú verið afnumin.
Samkvæmt alþjóðalögum og mannréttindaviðmiðum, sem stjórnarskrá Pakistan endurspeglar, verður að virða þau réttindi að fullu og skilyrðislaust við allar kringumstæður, hvort sem að neyðarástand ríkir eða ekki.
Sendu bréf til stjórnvalda í Pakistan og mótmæltu mannréttindabrotunum
